Viðskipti innlent

Markaðs­mis­notkunar­málið: „Nej, det är inte Eggert, det är Magnus”

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björn Þorvaldsson saksóknari er hér lengst til hægri ásamt aðstoðarmönnum sínum.
Björn Þorvaldsson saksóknari er hér lengst til hægri ásamt aðstoðarmönnum sínum. VÍSIR/GVA
Það er vel þegið í dómsal þegar tækifæri gefst til þess að hlæja þar sem stemningin þar er oftast frekar alvarleg.

Í dag gafst slíkt tækifæri við aðalmeðferðina í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings þegar reynt var að hafa samband við Eggert Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs bankans í Lúxemborg.

Búsettur í Svíþjóð

Eggert er vitni í málinu en er búsettur í Svíþjóð og átti að taka af honum skýrslu í gegnum síma. Þegar hringt var á skrifstofu hans svaraði hins vegar ekki Eggert heldur kona sem spurði, á sænsku, um nafn og símanúmer þess sem hringdi.

Arngrímur Ísberg, dómsformaður, sagðist þá vera að hringja úr „byretten í Reykjavík” og að hann þyrfti að ná tali af Eggerti. Var honum þá gefið samband og bjuggust nú allir við að Eggert myndi svara.

Vissulega svaraði karlmaður en það var ekki Eggert: „Nej, det är inte Eggert, det er Magnus.”

Skondin uppákoma

Uppskar hinn sænski Magnus hlátur í dómsal en Arngrímur spurði þá aftur eftir Eggerti. Magnus sagði að hann væri ekki við en hann gæti beðið hann um að hringja til baka.

Dómsformaður sagði þá að það þýddi ekki, Eggert ætti að gefa skýrslu í gegnum síma fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en Magnus gæti kannski reynt að finna Eggert. 

Var þessi uppákoma vægast sagt skondin og var augljóst að Arngrími, sem og öðrum dómurum málsins, sækjanda og verjendum var skemmt, að ógleymdum blaðamönnunum sem sitja aðalmeðferðina.

Skömmu síðar náðist samband við Eggert og gat þá farið fram skýrslutaka yfir honum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×