Íslenski boltinn

Spá Fréttablaðsins og Vísis: Víkingur hafnar í 7. sæti

Pape Mamadou Faye fagnar marki gegn Þór með Igor Taskovic og Dofra Snorrasyni.
Pape Mamadou Faye fagnar marki gegn Þór með Igor Taskovic og Dofra Snorrasyni. vísir/pjetur
Fréttablaðið og Vísir telur niður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu með árlegri spá sinni. Íslandsmótið hefst 3. maí og þar á Stjarnan titil að verja eftir að verða meistari í fyrsta skipti í sögu félagsins.

Fréttablaðið og Vísir spáir Víkingi sjöunda sæti Pepsi-deildarinnar í sumar, en það er þremur sætum lægra en liðið endaði á síðustu leiktíð. Víkingar komu liða mest á óvart í fyrra og nældu sér í Evrópusæti í fyrsta sinn í 23 ár. Liðið hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari, síðast árið 1991.

Ólafur Þórðarson þjálfar Víking fjórða árið í röð, en nú hefur Serbinn Milos Milojevic fengið stöðuhækkun og er orðinn samþjálfari Ólafs í stað aðstoðarþjálfari liðsins. Samstarf þeirra hefur skilað Víkingum Pepsi-deildarsæti á ný og Evrópukeppni.

LÍKLEGT BYRJUNARLIÐ
graf/garðar
EINKUNNASPJALDIÐ

Vörnin: 4 stjörnur (af 5)

Sóknin: 3 stjörnur

Þjálfarinn: 3 stjörnur

Breiddin: 2 stjarna

Liðsstyrkurinn: 2 stjarna

Hefðin: 2 stjörnur

Igor Taskovic, Alan Lowing og Rolf Toft.vísir/pjetur
ÞRÍR SEM VÍKINGUR TREYSTIR Á

Igor Taskovic: Serbneski miðjumaðurinn tók Pepsi-deildina síðasta sumar með trukki og dýfu og var einn besti leikmaður deildarinnar. Hann er algjör lykilmaður í Víkingsliðinu; fyrirliði þess og leiðtogi. Hann les leikinn ótrúlega vel, brýtur niður sóknir andstæðinganna og ber upp boltann fyrir liðið. Igor er mikilvægasti leikmaður Víkingsliðsins.

Alan Lowing: Víkingar gerðu vel með að semja aftur við Lowing áður en síðasta tímabili lauk svo þeir þyrftu ekki að fara í samkeppni um undirskrift hans. Frábær miðvörður sem átti stórgott sumar í fyrra. Skynsamur miðvörður sem er góður á boltanum og er jafnan réttur maður á réttum stað.

Rolf Toft: Daninn kom sterkur inn í meistaralið Stjörnunnar í fyrra og skoraði sex mörk í ellefu leikjum. Verður í öðru hlutverki hjá Víkingum þar sem hann mun spila meira á kantinum og sækja boltann aftur. Þarf engu að síður að vera maður sem skilar mörkum og á það treysta Víkingar í sumar.



Stefán Þór Pálsson hefur spilað vel á vormótunum.vísir/pjetur
Nýstirnið: Stefán Þór Pálsson

Blikinn hefur verið lánaður til Grindavíkur og KA í 1. deildina undanfarin ár, en Milos og Ólafur hafa mikla trú á honum og nú fær hann tækifæri til að spila sem fastamaður í efstu deild.

Marksækinn miðjumaður sem hefur skorað reglulega á undirbúningstímabilinu. Víkingar mega ekki búast við nýjum Aroni Elís, en Stefán getur klárlega slegið í gegn í sumar haldi hann áfram að spila eins og í vetur.

Viktor Bjarki Arnarsson er kominn heim í þriðja sinn.vísir/ernir
MARKAÐURINN

Komnir:

Andri Rúnar Bjarnason frá BÍ/Bolungarvík

Atli Fannar Jónsson frá ÍBV

Denis Cardaklija frá Fram

Finnur Ólafsson frá Fylki

Haukur Baldvinsson frá Fram

Hallgrímur Mar Steingrímsson frá KA

Milos Zivkovic frá Serbíu

Rolf Toft frá Stjörnunni

Stefán Þór Pálsson frá Breiðabliki

Thomas Nielsen frá Danmörku

Viktor Bjarki Arnarsson frá Fram

Farnir:

Aron Elís Þrándarson í Álasund

Kristinn Jóhannes Magnússon í KR

Ingvar Þór Kale í Val

Iliyan Garov  

Ómar Friðriksson í Fram á láni

Óttar Steinn Magnússon

Ventseslav Ivanov

Viktor Jónsson í Þrótt (Á láni)

Það var nóg að gera á markaðnum hjá Víkingum sem bættu við sig tólf leikmönnum eftir að missa tíu. Þeir voru gagnrýndir fyrir að vera með of litla breidd í fyrra og hafa unnið í þeim málum.

Stóri fengurinn var Rolf Toft, en síðast þegar Víkingur stal framherja af meistaraliði var það Guðmundur Steinsson 1990. Hann varð markakóngur og Víkingur meistari næsta sumar. Við því býst þó enginn að þessu sinni.

Hvernig lífið hjá Víkingi verður án Arons Elís á eftir að koma í ljós. Þegar hann var upp á sitt besta síðasta sumar rakaði Víkingur inn 90% af stigunum sem kom liðinu í Evrópukeppni. Hann getur ekki lengur borið sóknarleikinn uppi þannig aðrir verða að leggja lóð sín á vogarskálarnar.

Víkingar hentu líka frá sér markverðinum Ingvari Kale sem átti mjög gott sumar framan af og er uppalinn Víkingur. Í staðinn var fenginn Daninn Thomas Nielsen sem hefur engað heillað og er svo komið að Denis Cardaclija mun líklega byrja fyrsta leik. Að láta Ingvar fara gæti reynst Víkingum dýrkeypt.

Hallgrímur Mar Steingrímsson er spennandi leikmaður sem byrjar mótið þó meiddur og þá er Viktor Bjarki Arnarsson kominn heim í þriðja skiptið. Vonandi fyrir Víkinga á hann einhver ár eftir til að gefa uppeldisfélaginu.

Hvað breiddina varðar gerðu Víkingar ágæta hluti á félagaskiptamarkaðnum, en það var vont að missa Aron Elís og þá gætu markvarðarmálin ollið þeim vandræðum.

HVAÐ SEGIR SÉRFRÆÐINGURINN?

Hjörtur Hjartarson kemur nýr inn í Pepsi-mörkin í ár, en hann hefur áður stýrt íslensku mörkunum á RÚV og verið sérfræðingur í Messunni á Stöð 2 Sport og Meistaramörkunum. Hjörtur spilaði með Skallagrími, Völsungi, ÍA, Þrótti, Selfossi og Víkingi á 19 ára löngum ferli. Hann varð markakóngur í úrvalsdeildinni árið 2001 þegar hann fagnaði Íslandsmeistaratitlinum með ÍA.

 

Ólafur Þórðarson og Milos Milojevic stýra Víkingsliðinu saman.vísir/daníel
STYRKLEIKAR LIÐSINS:

Víkingsliðið er vel skipulagt og spilar góðan fótbolta. Það heldur bolta vel og er erfitt að brjóta niður. Varnarlínan lítur vel út með þá Dofra og Ívar í bakvörðunum og Serbann og Skotann fyrir hjarta varnarinnar. Þá er liðið með stjörnuframherja í Rolf Toft sem ætti að geta skorað einhver mörk. Þjálfaratvíeykið er öflugt en Milos og Ólafur ná vel saman og miklu út úr liðinu.

VEIKLEIKAR LIÐSINS:

Víkingur mætir til leiks með mikið af nýjum mönnum og án eins allra besta leikmanns Íslandsmótsins í fyrra. Markvarðamálin eru í uppnámi, en það er eitthvað sem Fossvogsliðið gat treyst á undanfarin tvö ár. Það er nóg af sóknarmönnum í liðinu en verði Toft ekki sá framherji sem liðið vonast til er óvíst hver stígur upp og skorar mörkin. Pape hefur átt við meiðsli að stríða í langan tíma, en verði hann heill kemur hann til greina.

Hver á að fylla í skarð Arons Elís?vísir/pjetur
BINNI BJARTSÝNI SEGIR:

Það missa öll góð íslensk lið sína bestu menn. Það er ekkert nýtt. Þó margir leikmenn séu komnir var hópurinn klár þokkalega snemma og hefur liðið getað spilað á sínu sterkasta í margar vikur. Það hjálpar og svo eru Óli og Milos svo flottir saman. Toft mun raða inn mörkum og svo er mikið af spennandi strákum í liðinu eins og Stebbi Páls og Aukaspyrnu-Ívar Örn Jónsson. Við verðum áfram í Evrópubaráttunni.

SIGGI SVARTSÝNI SEGIR:

Þetta er ekki sama liðið og náði í Evrópusæti í fyrra. Lið sem fá tólf leikmenn og missa tíu gera ekkert af viti eins og hefur sannast enda alltof mikil uppbygging í gangi. Víkingur ætlaði sér stærri hluti og reyndi við stærri bita á markaðnum, en það tókst ekki. Við þurfum bara að sætta okkur við slakara annað ár og vonast til að halda áfram að festa okkar sæti í deildinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×