Viðskipti innlent

Samningar vegna Þeistareykjavirkjunar undirritaðir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá undirritun samninganna í hádeginu í dag.
Frá undirritun samninganna í hádeginu í dag. Vísir/Stefán
Landsvirkjun undirritaði í dag samninga við LNS Sögu vegna byggingu stöðvarhúss og veitna við Þeistareykjavirkjun. Undirritunin markar upphaf framkvæmda við virkjunina en ef allt gengur samkvæmt áætlun munu byggingarframkvæmdir fara fram á þessu ári og því næsta.

Stefnt er svo að því að Þeistareykjastöð verði tengd Landsneti árið 2017 og hefji framleiðslu inn á kerfið í október sama ár. Þeistareykjajörð er gömul landnámsjörð sem liggur suðaustur af Húsavík og er nú í eigu Þingeyjasveitar.

„Þetta er einkar ánægjulegur áfangi fyrir okkur hjá Landsvirkjun. Við höfum lagt mikla vinnu í undirbúning Þeistareykjavirkjunar í mörg ár og allan þann tíma lagt áherslu á góða umgengni við umhverfi og sátt við samfélagið,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar við undirritun samninganna í dag.

Heildarfjárhæð þeirra vegna byggingu stöðvarhúss og veitna er um 6,6 milljarðar króna, en áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við fyrsta áfanga virkjunarinnar nemi á bilinu 20 til 24 milljarða króna. Þegar mest verður munu hátt í 200 starfsmenn vera við vinnu á svæðinu á framkvæmdatímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×