Viðskipti innlent

Segir pólitísk fingraför á tillögum um fjölgun seðlabankastjóra

ingvar haraldsson skrifar
Þórólfi Matthíassyni hugnast illa hugmyndir um fjölgun seðlabankastjóra.
Þórólfi Matthíassyni hugnast illa hugmyndir um fjölgun seðlabankastjóra. vísir/arnþór/kristinn
„Mér finnst óþarfi að hafa þá þrjá og það lyktar af pólitískri skiptingu,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, um tillögur nefndar um endurskoðun laga um Seðlabankann. Í tillögunum er lagt til að seðlabankastjórar verði þrír.

„Þó að þeir skrifi mjög mikið um það að það eigi ekki að verða, þá finnst mér það frekar þunn röksemdafærsla og augljóst að stjórnmálamennirnir ætla sér að vera með puttana í þessu áfram,“ segir Þórólfur.

Þórólfur telur að núverandi kerfi gangi ágætlega. Seðlabankastjórar eru nú tveir, Már Guðmundsson aðalseðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri. Þá ákveður peningastefnunefnd stýrivexti en í henni eru fimm manns. Tveir aðilar skipaðir af fjármálaráðherra, seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og einn af yfirmönnum bankans á sviði peningamála. Lagt er til að seðlabankastjórarnir þrír muni taka sæti í peningastefnunefndinni og áfram verði tveir meðlimir hennar skipaðir af fjármálaráðherra.

Þórólfur bendir því á að seðlabankastjóri sé ekki einráður um málefni bankans.

„Peningastefnunefndin tekur mikilvægar ákvarðanir og það er ekki lagt á hendur þessa eina manns,“ segir Þórólfur.

Telur ákvæði um nafnleynd líta illa út

„Þetta ákvæði um nafnleynd umsækjenda slær mig illa,“ segir Þórólfur en í tillögunum er lagt til að nafnleynd ríki um umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra. „Það býður upp á vandamál. Ef menn eru ekki tilbúnir að standa við umsókn um svona stöðu, eiga þeir ekki að sækja um,“ segir Þórólfur.

Ekki auðvelt að finna þrjá hæfa

„Það er ekkert auðvelt að finna þrjá menn sem eru faglega hæfir og með stjórnunarreynslu úr bankakerfinu sem uppfylla þetta. Innan bankakerfisins verða menn of tengdir svo það er erfitt að finna menn þaðan sem eru nægjanlega óháðir. Yfirleitt verður þetta fólk að koma innan úr seðlabankanum eða úr erlendum seðlabönkum eins og Már gerði eiginlega. Það er ekki margir sem uppfylla þessi skilyrði og það þrefaldar vandræðin. Þá er verið að ná öðrum markmiðum í mínum huga,“ segir Þórólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×