Viðskipti innlent

MP banki hagnast um hálfan milljarð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Atli Jónsson er forstjóri MP banka.
Sigurður Atli Jónsson er forstjóri MP banka.
Hagnaður MP banka á síðari árshelmingi 2014 nam 494 milljónum króna samanborið við 159 milljóna króna tap á fyrri árshelmingi. Hagnaður á árinu 2014 í heild er því 335 milljónir króna eftir skatta, samanborið við 477 milljóna króna tap árið 2013.

Bætt afkoma í rekstri MP banka á síðari hluta ársins 2014 skýrist meðal annars af því að rekstrartekjur jukust um 23% á milli árshelminga. Rekstrartekjur námu 1.836 milljónum króna á síðari árshelmingi, en voru 1.492 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrartekjur ársins í heild námu því 3.328 milljónum króna. Hreinar þóknanatekjur jukust um 12% á milli árshluta 2014, en þær námu 814 milljónum króna á fyrri hluta ársins og 916 milljónum króna á síðari hluta ársins. Hreinar þóknanatekjur ársins 2014 í heild námu því 1.730 milljónum króna.

Hreinar vaxtatekjur lækkuðu um 7% á milli árshelminga. Þær námu 628 milljónum króna á síðari hluta ársins en voru 674 milljónir króna á fyrri hluta þess. Fyrir árið í heild námu hreinar vaxtatekjur 1.302 milljónum króna.

Verulegur viðsnúningur varð í fjárfestingartekjum á milli árshelminga og námu þær 234 milljónum króna á síðari hluta ársins, m.a. vegna söluhagnaðar af eignum bankans í Litháen.

Vegna umfangsmikilla hagræðingaraðgerða sem gripið var til á fjórða ársfjórðungi 2013 og á fyrri hluta ársins 2014 hefur kostnaður bankans lækkað verulega. Þannig hefur rekstrarkostnaður lækkað um tæpar 600 milljónir króna á milli ára, farið úr 3.669 milljónum króna árið 2013 niður í 3.071 milljónir króna árið 2014. Nemur lækkunin um 16% á milli ára og um 10% á milli árshelminga 2014.

Eigið fé bankans í lok árs 2014 nam 5.597 milljónum króna og heildareignir námu 49.344 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall bankans hefur hækkað um 3,2 prósentustig á árinu og var 17,4% í árslok 2014, samanborið við 14,2% í árslok 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×