Viðskipti innlent

Vátryggingarekstur TM var í járnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Viðarsson forstjóri TM.
Sigurður Viðarsson forstjóri TM. vísir/stefán
„Þrátt fyrir að hagnaður félagsins á árinu 2014 dragist saman milli ára var hann meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hagnaðurinn skýrist að stærstum hluta vegna góðrar afkomu af fjárfestingastarfsemi en vátryggingareksturinn var í járnum, bæði vegna óvenju margra stærri eignatjóna og aukinnar tíðni ökutækjatjóna,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, í tilkynningu.

Heildarhagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar á síðasta ári eftir skatta var 2,07 milljarðar króna en var 2,33 milljarðar á síðasta ári. Heildarhagnaður fjórða fjórðungs var 533 milljónir króna en var 432 milljónir árið á undan.

Framlegð af vátryggingastarfsemi var neikvæð um 215 milljónir króna á fjórða fjórðungi en var jákvæð um þrjár milljónir á sama tímabili í fyrra. Framlegðin var jákvæð um 117 milljónir á öllu síðasta ári en var jákvæð um 871 milljón allt árið á undan.

Eigið fé félagsins nemur 13,96 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfallið 44,9 prósent. Stjórn TM leggur til að 4.000 milljónir króna verði greiddir í arð á árinu 2015. Að auki leggur stjórn til að allt að 1.500 milljónum króna verði varið til kaupa á eigin bréfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×