Viðskipti innlent

Raftæki rjúka út úr verslunum

Miklar breytingar urðu á umhverfi verslunar um áramótin, þegar vörugjöld voru afnumin. Stór raftæki á borð við sjónvörp og þvottavélar lækkuðu hvað mest í veðri við breytingarnar, eða um allt að 21 prósent.

„Augljóslega, þá voru miklar umræður fyrir áramót af því að þetta var í pípunum,“ segir Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri Elko. „Þetta er það mikil verðlækkun sem að er komin fram, að eðlilega beið fólk, þeir sem ekki treystu á að þetta myndi lækka fyrir áramót. Sem að við vorum byrjuð á. Núna er allt farið af þannig að það eru mikil viðskiptatækifæri í gangi núna.“

Fréttastofa ræddi við forsvarsmenn fjölda raftækjaverslana og voru kaupmenn sammála um að mikil söluaukning hafi orðið í janúar. Samanborið við árið áður. Sumstaðar eru vörulagerar til að mynda að verða tómir.

„Salan hefur verið mjög góð og eftir áramótin hefur hún tekið gríðarlegan kipp. Það sem vantar kannski er að fylla á eftir áramótin og okkur gengur svolítið hægt að leysa vörur úr tolli, en þetta er allt að koma.“

Gestur segir marga vera að endurnýja gömul og úr sér gengin nauðsynjatæki. Viðskiptavinir séu meðvitaðir um verðlagsbreytingarnar og spyrji starfsfólk mikið út í þær.

„Nú er svona orðið eðlilegt viðskiptaumhverfið fyrir þessa tegund verslunar og við fögnum því. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk hafi efni á því að vera með góð tæki sem virka og jafnvel orkusparandi tæki á þessum tímum.“

Aðspurður um hvort lækkunin skili sér beint í vasa viðskiptavina segir hann svo vera.

„Síðan er Hagstofan að skoða þetta í hverjum einasta mánuði. Við sendum þeim gögn, það er auðvelt að mæla þetta, það sést strax lækkun á þessum tækjum. Þannig að það er hægt að fá þetta staðfest hvar sem er.“

Á sama tíma og ný raftæki eru keypt losar fólk sig við þau gömlu. Þessa dagana er því nóg um að vera hjá endurvinnslustöðvum Sorpu, þar sem fjöldi raftækja enda ævidaga sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×