Viðskipti innlent

Hagvöxtur 5,2% á fyrri árshelmingi

Sæunn Gísladóttir skrifar
Neysla og fjárfesting dró hagvöxtinn áfram á fyrri árshelmingi
Neysla og fjárfesting dró hagvöxtinn áfram á fyrri árshelmingi Vísir/GVA
Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 jókst um 5,2% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2014. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 7,3%. Einkaneysla jókst um 4,4%, samneysla um 1,0% og fjárfesting um 21,2%. Útflutningur jókst um 9% og innflutningur nokkru meira, eða um 13,6%. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar. Landsframleiðslan á 2. ársfjórðungi 2015, án árstíðaleiðréttingar, jókst um 5,6% frá sama ársfjórðungi fyrra árs en árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst um 3,3% frá 1. ársfjórðungi 2015.

Hagvöxtur 1,8% árið 2014

Landsframleiðsla jókst að raungildi um 1,8% á árinu 2014 samkvæmt endurmati á niðurstöðum þjóðhagsreikninga. Neysla og fjárfesting dró hagvöxtinn áfram en þjóðarútgjöld jukust um 5,2% á föstu verðlagi.

Einkaneysla jókst um 3,1%, samneysla um 1,8% og aukning fjárfestingar nam 15,4% mælt á föstu verðlagi. Útflutningur jókst um 3,1% á sama tíma og innflutningur jókst um 9,8% þannig að þótt verulegur afgangur yrði af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári, eða  124,5 milljarðar króna, dró utanríkisverslun úr hagvexti.

Vöxtur fjárfestinga hefur ekki verið meiri  frá árinu 2006, en hún jókst árið 2014 um  15,4%, þar af var aukning íbúðafjárfestingar 14,8% og fjárfesting atvinnuveganna 16,3%.

Halli á launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum var fremur lítill, annað árið í röð, samkvæmt niðurstöðum Seðlabanka. Það ásamt afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum leiddi til jákvæðs viðskiptajafnaðar á árinu 2014. Hann nam rúmum 83,5 milljörðum króna, 4,2% af landsframleiðslu á árinu. Til samanburðar var viðskiptajöfnuður jákvæður um tæpa 124 milljarða árið 2013 á verðlagi þess árs. Viðskiptakjör bötnuðu um 1,8% á árinu 2014 sem ásamt jákvæðum viðskiptajöfnuði varð til þess að þjóðartekjur jukust umfram vöxt landsframleiðslu eða um 3,0%. Árið 2013 jukust þjóðartekjur aftur á móti um 11,9%.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×