Viðskipti innlent

Fyrirtækið sem notað var til fjárdráttarins með reglulega samninga við sveitarfélagið

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Félagið Bás ehf. var notað í meintum fjárdrætti fyrrverandi forseta bæjarstjórnar Fjallabyggðar.
Félagið Bás ehf. var notað í meintum fjárdrætti fyrrverandi forseta bæjarstjórnar Fjallabyggðar.
Fyrirtækið sem Magnús Jónasson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar, er grunaður um í félagi við ónafngreindan aðila að hafa notað til að draga sér hundrað milljónir króna úr Sparisjóði Siglufjarðar er enn að gera samninga um verktöku fyrir sveitarfélagið.

Á fundi bæjarráðs þann 6. október síðastliðinn var samþykkt tilboð Bás ehf., sem er umrætt fyrirtæki, um endurgerð grjótdrens norðan við Stóra Bola. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Fjallabyggðar. Þar kemur fram að fyrirtækið fær 1,4 milljónir króna fyrir verkið.

Í eigu eiginkonunnar

Fyrirtækið er, samkvæmt síðasta birta ársreikningi, að hluta í eigu eiginkonu Magnúsar, Hrannar Fanndal, en hún var auk þess með prókúru hjá því og skráður framkvæmdastjóri.

Sveinn H Zophoníasson, stjórnarmaður og einn eigenda fyrirtækisins, vildi ekki tjá sig um málið en staðfesti að Hrönn sé ekki lengur framkvæmdastjóri þess. Hún er þó enn meðal eigenda þess. Aðspurður hvort breytingar á eignarhaldi sé fyrir dyrum, ítrekaði hann þá afstöðu að vilja ekki tjá sig um málið á meðan það væri til skoðunar.

Hrönn vildi ekki tjá sig í samtali við fréttastofu og skellti á þegar blaðamaður bar upp spurningar um núverandi tengsl hennar við fyrirtækið.

Magnús eigandi til 2012

Áður en Hrönn kom inn sem einn eigandi fyrirtækisins var Magnús, maður hennar, einn eiganda þess. Það virðist vera sem svo, miðað við ársreikninga, að Hrönn hafi tekið yfir eignarhlut Magnúsar í fyrirtækinu árið 2012, en árið 2011 var Magnús skráður fyrir 10 prósenta hlut í fyrirtækinu, eða jafn miklu og Hrönn er sögð eigandi að í ársreikningi fyrir árið 2013.

Ólafur Þór Ólafsson, skrifstofu- og fjármálastjóri Fjallabyggðar, segir að Magnús hafi ekki komið nálægt ákvörðunum um að ganga til samninga við Bás um verktöku. Honum er kunnugt um tengsl Magnúsar við fyrirtækið, sem og tengsl Ríkharðs Hólms Sigurðssonar, sem tók við af Magnúsi sem forseti bæjarstjórnar, við það. Ríkharður er starfsmaður þess.

Ólafur staðfestir einnig að Bás hafi unnið verkefni fyrir sveitarfélagi reglulega síðustu ár, en það sé alltaf á grundvelli útboða.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×