Viðskipti innlent

Boða frumvarp um frjáls félagasamtök

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, var kjörinn formaður Almannaheilla.
Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, var kjörinn formaður Almannaheilla.
Leggja á fram lagafrumvarp um frjáls félagasamtök á vettvangi almannaheilla á komandi haustþingi. Þetta kom fram á aðalfundi Almannaheilla – samtaka þriðja geirans þann 1. júní síðastliðinn.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði þar í ávarpi sínu að mikilvægt væri að skýra réttindi og skyldur félagasamtaka, svo sem um opið bókhald og skattaumhverfi þeirra. Í tilkynningu frá Almannaheillum segir að í drögum að frumvarpinu, sem kynnt hafa verið, sé meðal annars kveðið á um ívilnanir á borð við hækkun upphæða gjafa frá fyrirtækjum sem draga má frá skatti.

Nýr formaður Almannaheilla var kosinn á aðalfundinum, Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð, kennnari við Háskólann í Reykjavík og fyrrum formaður Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra. „Markmið nýrrar stjórnar er að fylgja frumvarpinu eftir, hvetja til fagmennsku og stuðla að aukinni meðvitund í samfélaginu um mikilvægi almannaheillasamtaka og sjálfboðastarfs,“ segir Ketill.

Almannaheill leggja áherslu á að fjölga aðildarfélögum, sem nú eru 26, og kynna almenningi umfang og eðli alls þess framlags sem þriðji geirinn leggur til samfélagsins og lýðræðisþróunar. Einnig verður efnt til námskeiða og málþinga um fjölmörg sameiginleg hagsmunamál þriðja geirans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×