Viðskipti innlent

Evrópskir fjárfestar skoða Arionbanka

Höskuldur Kári Schram skrifar
Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arionbanka finnur fyrir miklum áhuga hjá evrópskum fjárfestum að kaupa hlut í bankanum. Hann telur mikilvægt að stefna að fjölbreyttu eignarhaldi á íslenskum fjármálafyrirtækjum og að það sé ekki gott fyrir markaðinn að ríkið fari með stóran eignarhluta.

Arionbanki hagnaðist um 25,4 milljarða á fyrstu níu mánuðum þessa árs samkvæmt árshlutareikningi sem var kynntur í dag. Hagnaður jókst um tæpa þrjá milljarða miðað við sama tímabil í fyrra.

Nokkrir fjárfestahópar hafa sýnt áhuga á því að kaupa bankann og hafa þeir meðal annars verið í óformlegum viðræðum við slitastjórn Kaupþings vegna málsins.

Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arionbanka segist einnig finna fyrir miklum áhuga hjá evrópskum fjárfestum sem vilja kaupa hlut í bankanum.

„Við höfum orðið þess áskynja að fólk hefur áhuga og hefur fundist áhugavert það sem við höfum verið að gera. Það er búið að gera feykilega marga góða hluti í þessum banka á undanförum árum og þessu fjármálakerfi yfir höfuð á Íslandi sem hefur vakið eftirtekt. Þannig að ég er ekki hissa að menn skoði þetta vel,“ segir Höskuldur.

Hann segir æskilegt að stefna að fjölbreyttu eignarhaldi á íslenskum fjármálafyrirtækjum og það sé kostur að fá inn erlenda aðila.

„Ég held að það skipti miklu máli að eignarhaldið verði ekki einsleitt í öllum bönkunum. Betra að það verði sem mest breidd og endilega að sjá einhverja útlendinga,“ segir Höskuldur.

Ríkið mun væntanlega taka yfir íslandsbanka sem hluta af stöðugleikaframlagi kröfuhafa Glitnis. Höskuldur telur æskilegt að ríkið selji bankann eins fljótt og kostur er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×