Lífið

Keypti sér frið frá raunveruleikanum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Gagga segir kvikmyndagerð vera samstarf og enginn í keðjunni sé betri en veikasti hlekkurinn.
Gagga segir kvikmyndagerð vera samstarf og enginn í keðjunni sé betri en veikasti hlekkurinn. Vísir/Arnþór
Rannveig Jónsdóttir er sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarkona sem hefur getið sér gott orð í þeim geira á Íslandi og víðar. Hún hefur starfað við tugi kvikmynda, auglýsinga og sjónvarpsþátta, bæði íslenska og erlenda framleiðslu. Gagga, eins og hún er alltaf kölluð, er gift leikaranum Þorsteini Bachmann, sem hún á dótturina Auði Draumu með, en barnið breytti áherslunum í lífi Göggu. Hún ætlar sér stóra hluti í framtíðinni.

„Ég er búin að vinna alfarið við kvikmyndagerð síðan ég var tvítug. Það eru að verða komin sextán ár. Móðursystir mín, Guðný Halldórsdóttir, er kvikmyndaleikstjóri og svo átti ég stjúpföður sem er kvikmyndaframleiðandi svo ég var mikið viðloðandi kvikmyndagerð sem barn. Ég hef verið svona tólf ára þegar ég fékk að aðstoða í eldhúsinu þegar verið var að filma þýska sjónvarpsseríu. Svo lék ég í barnamynd þegar ég var lítil, Pappírspésa – í hana fóru allavega tvö löng sumur. Það getur vel verið að þessi tímabil í æsku minni hafi orðið þess valdandi að ég starfa við kvikmyndagerð í dag. Mér þótti alltaf gaman og spennandi að vera á setti og í kringum kvikmyndagerðarfólk. Þegar ég var tvítug fékk ég vinnu við kvikmyndina Ungfrúnna góðu og húsið sem Duna frænka mín var að gera þá. Planið var þá að taka mér smá frí frá skóla en það var ekki aftur snúið.”

Gagga í vinnunniVísir/Arnaldur Halldórsson
Tafir geta verið dýrkeyptar

Gagga hefur starfað bæði sem framleiðandi og framleiðslustjóri á íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum auk þess sem hún hefur unnið við mörg erlend verkefni sem hafa verið tekin hér á landi.

„Ég er frílans og vinn mest fyrir aðra. Sem hentar mér að mörgu leyti vel. Mitt starf snýst mikið um að finna gott fólk sem hentar verkefninu hverju sinni, fá leyfi fyrir tökustöðum, skipuleggja tökudaga, velja leikara og gera budget. Svo týnast allskonar hlutir til og starfið getur verið afar fjölbreytt og breytilegt frá degi til dags eftir því hvað er verið að fara að mynda og um hvað verkefnið fjallar. Tafir eru oft dýrkeyptar og veður getur sett strik í reikninginn og kollvarpað margra vikna plönum á núlleinni. Þá þarf maður að bregðast við, hratt og örugglega. Sumir dagar eru eins að keppa í Amazing Race. Kvikmyndagerð er samstarf og enginn í keðjunni betri en veikasti hlekkurinn. Það gerir allavega enginn neitt einn í próduksjón.”

Vill ljá konum meiri rödd

En langar þig ekki að fara búa til þínar eigin bíómyndir?



„Jú. Ég er að skrifa og stefnan er að framleiða kvikmyndir og leikið efni með áherslu á að ljá konum meiri rödd í heimi kvikmyndanna. Það er löngu komin tími á að íslenskar konur geti speglað sig í sínum eigin kvikmyndum og að við fáum ekki bara að sjá uppvaxtar- og þroskasögur drengja og karlmanna á hvíta tjaldinu eða kvenlegar stereótýpur sem eru alfarið skapaðar af mönnum. Við þurfum fjölbreytni, fleiri myndir sem eru skrifaðar af og leikstýrt af konum.

Ég og Silja Hauksdóttir, vinkona mín, leikstýra og samstarfskona, erum nú þegar með nokkur járn í eldinum, erum meðal annars að vinna að handriti sem við stefnum á að klára í haust samhliða öðrum verkefnum.

Hefur ekkert að fela

Gagga á vonandi ekki langt að sækja rithæfileikana. Afi hennar var Nóbelskáldið Halldór Laxness og systir hennar er rithöfundurinn Auður Jónsdóttir, en sú skrifaði eftirminnilega bók um fjölskyldu þeirra systra árið 2011, Ósjálfrátt. Sagan er fjölskyldusaga sem lýsir á berskjaldaðan hátt sögu kvenleggsins í fjölskyldu aðalpersónunnar og Gagga kemur þar við sögu. Alkóhólismi er veigamikið stef í sögunni. Finnst henni ekkert óþægilegt að bera líf sitt á þennan hátt?



„Nei, mér finnst það ekki óþægilegt. Við systur erum nánar og ég er yfirleitt búin að lesa bækurnar hennar áður en þær koma út. Það er ekki þannig að bókin sé bara komin í Eymundsson og allir fái í magann. Eða næstum ekki... Það er fullur skilningur á hennar sköpun og því að hún sem rithöfundur fjalli óhjákvæmilega um sína nánustu í verkum sínum. Ég hef ekkert að fela og hún veit alveg að ég ber fullt traust til hennar ef hún velur að hafa mig með í sínum verkum. Mér þykir það vera heiður. Ég held að allar fjölskyldur glími við erfiðleika sem verða frekar að vandamálum þegar þeim er breytt í leyndarmál. Ísland er lítið samfélag og fólk hefur áhuga á öðrum, og fólk var mjög áhugasamt um innihald bókarinnar af því að hún var byggð á fólki sem það kannaðist við. Ósjálfrátt á mjög sérstakan stað í mínu hjarta, Fólkið í kjallaranum líka. Upphafið að Ósjalfrátt var bréf sem Auja skrifaði til dóttur minnar og nöfnu sinnar. Ég er ekkert spéhrædd við bækurnar hennar. Það gleymist líka stundum í umræðunni um Ósjálfrátt að þó að sagan sé auðvitað um fjölskylduna okkar og margt sé rétt þá er hún líka skáldsaga.”

Heldurðu áfram að skrifa um fjölskylduna? 

„Ætli fjölskyldusagan manns skíni ekki alltaf í gegn? Ég hugsa að ég láti Auju samt eftir að skrifa um fjölskylduna,” segir Gagga, létt í bragði.

Auður og GaggaMynd/Úr einkasafni
Stundum allt á suðupunkti

Nú eruð þið hjónin bæði í þessum bransa og með barn – hvernig skipuleggið þið tímann ykkar?

„Tími okkar fer mjög eftir því hvað við erum að gera hverju sinni. Hann þarfnast oft mikillar skipulagningar. Ef ég hef verið í stóru verkefni sem tekur mikla orku og tíma þá hefur Steini verið laus við og öfugt, þannig gerum við dáldið hlutina. Það kemur auðvitað oft fyrir að allt sé á suðupunkti. Til dæmis þegar hann var að leika í Vonarstræti og ég var að vinna í nýjustu kvikmynd Dags Kára. Þetta getur orðið strembið en við eigum góða að. Tengdamóðir mín, Margrét, er okkur til dæmis ómetanleg aðstoð. 

Vinnið þið aldrei saman?



„Nei! Mjög sjaldan. Held að þau skipti séu teljandi á fingrum annarrar handar..Við kynntumst reyndar á setti þegar við vorum að vinna í kvikmynd Clints Eastwood, Flags of our fathers. Ég þekkti aðeins til hans en hefði spákona sagt mér að ég myndi giftast Steina hefði ég ráðlagt henni að fá sér nýja kristalskúlu. En það kennir manni bara að maður veit aldrei hvað verður.”

Þorsteinn og Auður Drauma
Vinnur með bestu vinunum

Hvað er skemmtilegast við að vinna við kvikmyndagerð?

„Fólkið númer eitt tvö og þrjú. Ferðalögin og fjölbreytileikinn. Mér finnst gaman í vinnunni en það fer rosalega mikið eftir því með hverjum ég er að vinna. Ég vinn mikið með sama fólkinu. Mér líkar til dæmis mjög vel að vinna fyrir TrueNorth og þar er fagmannlega að öllu staðið og þau eru góðir vinir mínir. Svo eru auðvitað allir hinir frílansararnir sem eru eins og önnur fjölskylda manns. Við erum mörg búin að vinna saman síðan við vorum mjög ung og þekkjumst vel. Flestir mínir bestu vinir eru líka samtarfsfólk mitt. Ef þú ætlar að þola þetta lið tólf til sextán tíma á dag vakandi og oft næstum sofandi, í fósturstellingu inni í rútu að borða bjúgu, þá er nauðsynlegt að þetta sé skemmtilegt fólk sem manni þykir vænt um.” segir Gagga og hlær.

Gætirðu hugsað þér að gera þetta alltaf?



„Ég veit það ekki. Núna get ég hugsað mér það en ef þú spyrð mig í næstu viku þá er svarið kannski annað. Þetta er tarnavinna og oft strembin. Maður þarf að gefa sig alla í starfið. Áður en ég eignaðist barn og setti líf mitt í fastari skorður þá fílaði ég þetta sígaunalíf, maður fer um allt og vílar ekki fyrir sér að búa úti á landi svo vikum skiptir. Á meðan ert þú líka dáldið að kaupa þér frið frá raunveruleikanum. Kannski eins og sjómaður. Maður fer út á land og les ekki blöðin og er einhvernveginn fyrir utan. Það þarf líka að vera með í lífinu. Það er miklu auðveldara fyrir mig að fúnkera í vinnunni en í lífinu, en svo breytist það og maður eignast barn og fer að hugsa öðruvísi. Og nei, ég get ekki endilega hugsað mér að vera í snjóbuxum með talstöð á sextánda tíma eftir þrjátíu ár… og samt, er það ekki bara. Ef ég verð í nógu góðu formi,” útskýrir Gagga og hlær.

„En ég tel mig hafa frá einhverju að segja og langar til að skrifa, leikstýra og framleiða í framtíðinni. Ég er til í þetta allt.



Vísir/Arnþór
Hætt að ritskoða sig

Hefurðu aldrei pælt í að læra meira?

„Ég hef alveg gert það og það er alveg ennþá inni í myndinni. Ég lifði frekar hratt þegar ég var ung og lokaði augunum fyrir ýmsu. Ég steypti mér í mjög miklar skuldir sem ég er svolítið ennþá með á bakinu. Það er ekki hlaupið að því fyrir mig að fara í nám og fá námslán, ég verð að vinna og ég hef gaman að því að vinna. En hitt er svo sannarlega á dagskránni – heimspekinám hefur reyndar verið á stefnuskránni í nokkurn tíma.

Í mörg ár hafði ég bara áhuga á settinu og settlífi og næsta verkefni – nú hef ég áhuga á öllu mögulegu og vil ekkert útiloka neitt” útskýrir Gagga. “Systir mín og maðurinn minn hafa hjálpað mér að sjá möguleikana í sjálfri mér. Þau hafa bæði bent mér á að láta bara vaða – þegar maður gerir það og hættir að ritskoða og taklmarka sjálfa sig þá getur ýmislegt gerst.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×