Viðskipti innlent

Hagnaður 365 miðla var 746 milljónir á síðasta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrirhuguð sameining Tals og 365 er enn til meðhöndlunar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Fyrirhuguð sameining Tals og 365 er enn til meðhöndlunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Vísir/Pjetur
365 miðlar högnuðust um 746 milljónir árið 2013 samkvæmt ársreikningi. Árið 2012 nam hagnaðurinn um 305 milljónum króna.

Í fréttatilkynningu frá 365 miðlum kemur fram að Ebitda hagnaður hafi verið 1.463 milljónir og nema áhrif af sölu Póstmiðstöðvarinnar um þriðjungi af þeirri upphæð.

„Á árinu 2014 voru sameinaðir hlutabréfaflokkar A og B og gefinn út nýr hlutabréfaflokkur að nafnverði 445 milljónir sem hefur verið greitt til félagsins. Allir þessir hlutir eru í eigu aðaleiganda 365, Ingibjargar S. Pálmadóttur. 365 miðlar hafa keypt hlut Fjölmiðils ehf. og hluta af bréfum Ara Edwald, fyrrum forstjóra.

Við samruna 365 og Tals, sem mun miðast við mitt ár 2014, láta hluthafar í IP Fjarskiptum ehf. af hendi hlutafé sitt í félaginu en fá í staðinn 19,3% hlut í A-flokki hlutafjár í 365 miðlum ehf.  Þannig að hlutafé í 365 miðlum ehf. í A-flokki hlutafjár hækkar um kr. 354 milljónir að nafnverði. Fyrirhuguð sameining Tals og 365 er enn til meðhöndlunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Samanlagt heildarhlutafé í A og B flokki í sameinuðu félagi verður því kr. 2.288 milljónir.

Núverandi hluthafar í 365 miðlum ehf. eiga áfram hluti sína í A- flokki hlutafjár í félaginu,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×