Viðskipti innlent

Spáð er 25 til 50 punkta lækkun stýrivaxta

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Vaxtaákvörðun Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður kynnt miðvikudaginn 10. desember.
Vaxtaákvörðun Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður kynnt miðvikudaginn 10. desember. Fréttablaðið/Stefán
Greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka gera ráð fyrir frekari lækkun stýrivaxta Seðlabankans næsta miðvikudag. Greiningardeild Arion spáir 0,5 prósentustiga lækkun, en Greining Íslandsbanka 0,25 prósentustigum.

Í rökstuðningi Íslandsbanka eru tölur um landsframleiðslu sagðar renna stoðum undir spá um 25 punkta lækkun og að önnur vaxtalækkun fylgi svo í febrúar. „Virkir raunvextir bankans miðað við ársverðbólgu eru nú tæplega 4,0 prósent og hafa hækkað um tæplega 0,7 prósentustig frá síðustu vaxtaákvörðun þrátt fyrir lækkun nafnstýrivaxta bankans þá,“ segir í umfjöllun Greiningar.

Greiningardeild Arion bendir einnig á að raunvaxtastig sé töluvert yfir því sem ákjósanlegt teljist að mati sérfræðinga þar á bæ. „Ársverðbólga hefur ekki einungis lækkað frá síðustu vaxtaákvörðun heldur hafa verðbólguhorfur einnig lækkað verulega,“ segir í Morgunkorni greiningardeildarinnar í gær.

Óvissa er engu að síður sögð fylgja því hvað gerist eftir helgi þegar kynntar verði tillögur ráðgjafahópsins sem starfi að áætlun um afnám hafta.

„Nú liggur fyrir ákvörðun stjórnvalda að samþykkja undanþágubeiðnir sem lúta að forgangskröfum í bú gamla Landsbankans og lenging í Landsbankabréfinu. Ef frekari skref verða stigin í átt að afnámi hafta á næstunni má færa rök fyrir því að Seðlabankinn stigi varlega til jarðar með lækkun stýrivaxta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×