Viðskipti innlent

Segir innistæðu fyrir lægra matarverði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir segir þróun matarverðs ekki hafa fylgt styrkingu krónunnar.
Ólafía B. Rafnsdóttir segir þróun matarverðs ekki hafa fylgt styrkingu krónunnar.
Styrking krónunnar hefur ekki skilað sér í lægra verði dagvöru. Þetta segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR stéttarfélags, í grein sem birtist í næsta VR blaði.

„Á tímabilinu lækkaði gengisvísitalan um 11% (12,4% styrking gengis). Matarverð eða verð á dagvöru hækkaði á sama tímabili um 1,8% og verð á innfluttri mat- og drykkjarvöru lækkaði um 0,6% samkvæmt mælingum Hagstofunnar,“ segir Ólafía í greininni.

Ólafía segist sjá fátt sem bendir til þess að styrking krónunnar hafi skilað sér í lægra matarverði. „Og það er í takt við það sem við neytendur sjáum í buddunni um hver mánaðamót,“ segir Ólafía. Hún spyr því þá sem halda því fram að styrking krónunnar hafi skilað sér í lægra verði á nauðsynjavörum hvar ávinningurinn sé.

„Í umræðunni hefur því oft verið haldið fram að útgjöld til matvæla séu sambærileg hjá öllum heimilum, burtséð frá tekjum. Það er ekki allskostar rétt. VR hefur bent á að þeir sem eru á lægri launum verji hlutfallslega meira af sínum ráðstöfunartekjum í matarinnkaup en þeir sem hæstu launin hafa, eins og Útgjaldarannsókn Hagstofunnar sýnir,“ segir Ólafía í grein sinni. Hún segir að tekjuhæstu heimilin verji að meðaltali 10,7% ráðstöfunartekna sinna í mat- og drykkjarvöru en þau tekjulægstu 17,6%.

Hagnaður Haga, sem rekur matvöruverslanirnar Bónus og Hagkaup, nam rúmum tveimur milljörðum króna á tímabilinu mars til ágúst síðastliðinn. Þetta má sjá í árshlutauppgjöri sem var kynnt síðla í október. Finnur Árnason, forstjóri fyrirtækisins, sagði við það tilefni að það væri stöðugleiki í verðlagi og tekjuvöxtur lítill. Hann sagði að styrking krónunnar kæmi glöggt fram í því uppgjöri enda væri framlegðin óbreytt.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir í samtali við Fréttablaðið það vera alveg ljóst að gengi krónunnar hafi afgerandi áhrif á verðlagið. Hann bendir á tölur Hagstofunnar varðandi verðlag máli sínu til stuðnings. Tólf mánaða verðbólga var eitt prósent í nóvember, en lækkunin skýrist að mestu af lækkun flugfargjalda og lægra olíuverði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×