Fastir pennar

Partí úr böndum

Ól Kristján Ármannsson skrifar
Það hefur löngum þótt einkennandi fyrir verklag hér á landi að vinna hluti á síðustu stundu.

Örfáum klukkustundum fyrir opnun sýninga eða stórviðburða er oftar en ekki allt á rúi og stúi, iðnaðarmenn á hlaupum og rusl úti um allt. Oftar en ekki bjargast hlutirnir einhvern veginn fyrir horn. Þetta reddast.

Sprengingu í fjölda ferðamanna síðustu ár virðist hins vegar mega líkja við partí þar sem gleymdist að láta húsráðendur vita af gestakomunni. Veislan er byrjuð þegar húsráðendur átta sig og fara að reyna að halda í horfinu og passa að húsið verði ekki rústað.

Raunar er furðulegt að við skulum ekki vera lengra komin í að búa ferðaþjónustu umgjörð sem tryggir sjálfbærni geirans, að ekki verði gengið svo á náttúruna að skemmdir hljótist af og að ferðamenn verði ekki fældir frá landinu aftur með okri og handahófskenndri ákvarðanatöku.

Það verður torvelt að finna öllum þessum nýju hótelum hlutverk ef ferðamenn hættir að langa til Íslands.

Nú er nýhafin gjaldtaka á vinsælum ferðamannastöðum, þar sem ekki hefur verið innheimtur aðgangseyrir áður. Við Kerið hefur bæst gjaldtaka í landi Reykjahlíðar fyrir norðan, við Leirhnjúk og austan Námaskarðs.

Landeigendur hafa stigið þetta skref í andstöðu við samtök ferðaþjónustu í landinu og að því er virðist stjórnvöld.

Afstaða þeirra er hins vegar um margt skiljanleg.

„Þetta snýst ekkert um frjálsa för fólks heldur flutning á fólki inn á okkar svæði þar sem einhverjir græða á meðan við þurfum að borga alla uppbyggingu. Þetta er löngu komið út fyrir einhvern almannarétt. Jónsbók var ekki hugsuð um það að selja þúsundum ferðamanna ár hvert inn á svæði í einkaeigu,“ sagði Ólafur H. Jónsson, forsvarsmaður Landeigendafélags Reykjahlíðar, í viðtali við Fréttablaðið í vikunni.

Sömu lögmál eiga við á Geysi þar sem ríkið kom fyrr á þessu ári, í krafti eignarhlutar á svæðinu, í veg fyrir áframhaldandi gjaldtöku.

Stefnuna vantar hins vegar. Raunar er furðulegt að enn þá skuli vera fundahöld, japl, jaml og fuður um hvernig skuli staðið að uppbyggingu og vernd ferðamannastaða.

Að Samtök ferðaþjónustunnar skuli í júní 2014 vera með fundaröð um landið vegna gjaldtöku til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Að lagarammann skorti.

Sofandahátturinn er algjör og í takt við stefnu stjórnvalda síðustu áratugi þegar kemur að náttúruminjum og náttúruvernd.

Haldi áfram vandræðagangur og stefnuleysi hvað varðar umgjörð, viðhald, uppbyggingu og verndun vinsælla ferðamannastaða hér á landi er erfitt að spá fyrir um málalok.

Hvort gjaldtökuskýli landeigenda hér og hvar um landið verði til þess að skaða orðspor landsins sem náttúruparadísar, eða hvort einhvers konar jafnvægi náist. Hvort fjármunir sem aflað er fari örugglega í þau verkefni sem lýst var yfir að þeir ættu að gera. Einhvern veginn verður þetta.

En hvort það reddast, það er óvíst.






×