Viðskipti innlent

Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Stærstur hluti erlendra ferðamanna gistir í Reykjavík.
Stærstur hluti erlendra ferðamanna gistir í Reykjavík. Vísir/Valli
Seldum gistinóttum heilsárshótela fjölgaði um 31 prósent í desember síðastliðnum miðað við sama mánuð 2012. Nóttunum fjölgaði í öllum landshlutum en hótel á Vesturlandi og Vestfjörðum sáu mestu hlutfallslegu aukninguna eða 135 prósent. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.

„Það er búin að vera stöðug aukning í gistinóttum í hverjum mánuði og ferðamenn hafa aldrei verið jafn margir og á síðasta ári. Ef maður tekur desember þá er hlutfallslega aukningin á landsbyggðinni augljóslega mikil þó að stærstur hluti ferðamanna gisti í Reykjavík,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF).

Helga Árnadóttir
Heilsárshótel á höfuðborgarsvæðinu áttu um áttatíu prósent af seldri gistingu í desember og þar jókst salan um 27 prósent frá sama mánuði 2012. Hótel á Suðurlandi sáu samanlagða 66 prósenta aukningu og á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 62 prósent. Þar á eftir komu Suðurnes með 48 prósenta aukningu en hótel á Norðurlandi ráku lestina með fjölgun upp á rúm átta prósent. 

„Á þessu eina ári sem um ræðir fjölgaði herbergjum á heilsárshótelum í Reykjavík um tæp þrettán prósent. Það eru um tvö hundruð herbergi og maður myndi ætla að herbergjanýtingin hafi batnað á milli ára í desembermánuði,“ segir Helga. 

Hún segir nokkur atriði hafa stuðlað að aukinni sölu á gistingu á landsbyggðinni og nefnir sérstaklega aukna áherslu landshlutanna á markaðssetningu og vetraropnanir.

„Markaðsstofurnar hafa unnið vel með ferðaþjónustufyrirtækjunum í að efla þjónustu og úrval afþreyingarmöguleika. Menn eru að horfa til þess að það verði áframhaldandi vöxtur og ef þú horfir á aukið framboð á flugi til landsins þá er það góð vísbending um það sem koma skal.“

Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir, hótelstjóri Icelandair Hótel Akureyri

„Herbergjanýtingin hjá okkur í desember og janúar hefur verið þokkaleg og hefur haldist nokkuð jöfn en hún mætti alltaf vera meiri. Við höfum nú þegar fengið fjölmargar bókanir fyrir næsta sumar og núna er skíðavertíðin að byrja og þá fáum við mikið af Íslendingum til viðbótar við þá ferðamenn sem koma hingað á þessum árstíma til að skoða norðurljósin."

María Bryndís Ólafsdóttir
María Bryndís Ólafsdóttir, hótelstjóri Hótel Stykkishólms

„Í janúar og desember bjóðum við eingöngu upp á gistingu fyrir hópa og við höfum séð miklu fleiri hópa en á sama tíma í fyrra og þeir koma allir til að sjá norðurljósin. Ég var með sex hópa í janúar en engan í sama mánuði í fyrra, og í þessum hópum eru frá fimmtán og upp í þrjátíu manns. Það er mikið um bókanir fyrir næsta sumar og við erum einnig farin að fá pantanir fyrir árið 2015."

Gunnlaugur Jónasson
Gunnlaugur Jónasson, hótelstjóri Gistihússins á Egilsstöðum

„Ég hef séð aukningu upp á vel yfir þrjátíu prósent í gistingu í janúar. Hingað hafa komið fleiri norðurljósahópar þrátt fyrir að það hafi verið lítið um norðurljós. Á sama tíma og þetta hefur verið að aukast höfum við verið að reka hótel og veitingahús allt árið og erum einmitt að bæta við okkur 32 herbergjum og stækka um meira en helming enda lítur árið vel út."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×