Fastir pennar

Vígamenn netsins

Ólafur Þ. stephensen skrifar
Bæði Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands og Ólafur Ragnar Grímsson forseti gerðu umræðuhætti þjóðarinnar að umtalsefni í áramótaávörpum sínum.

„Við erum ekki öll eins og við erum ekki öll með sömu skoðanir. En eitt af grundvallaratriðum mannlegra samskipta er að virða skoðanir annarra,“ sagði Agnes biskup. „Það er ljótt að sjá það á bloggsíðum og í athugasemdakerfum á netinu þegar lítið er gert úr skoðunum fólks, það hreinlega lagt í einelti með sífelldu niðurtali og háði. Þá er eins gott að sá eða sú sem fyrir verður hafi það sjálfstraust til að bera að geta staðið keik á eftir.“

Biskupinn lagði til að á nýju ári strengdum við þess heit að bera virðingu fyrir fólki og skoðunum þess. „Að treysta því að fólk beri gott fram úr góðum sjóði hjarta síns en sé ekki vænt um óheiðarleika eða hagsmunapot.“

Forsetinn talaði á svipuðum nótum: „Eric Schmidt, stjórnandi Google, hefur í nýrri bók um áhrif netsins og samfélagsmiðla lýst á skarpan hátt hvernig þessi nýja tækni opnar flóðgáttir neikvæðni, illmælgi og jafnvel haturs – löngunin til að höggva helsti hvatinn í síbylju bloggsins. Margir gerast þannig í netheimum vígamenn, líkjast Þorgeiri Hávarssyni sem spurður var hví hann hjó saklausan sauðamann. Svarið: „Eigi hafði hann nokkurar sakar til móts við mig en hitt var satt að eg mátti eigi við bindast er hann stóð svo vel til höggsins.“

Umræðan í netheimum á til að verða rætin og subbuleg í garð einstaklinga. Þar grassera líka síður sem dreifa hatursáróðri í garð minnihlutahópa eða jafnvel hálfrar þjóðarinnar.

Rætin og andstyggileg umræða um fólk sem gegnir opinberum stöðum eða tjáir sig í ræðu og riti er ekki nýtt fyrirbæri. Ekki þarf annað en fletta blöðunum frá fyrriparti 20. aldar eða skoða umræður á Alþingi á tímabilum til að sannfærast um að Íslendinga hefur löngum skort virðingu fyrir fólki sem er ósammála þeim. Þá hefur ekki staðið á fullyrðingum um persónu eða eðli andstæðingsins en yfirvegaðar röksemdir gjarnan mátt víkja.

Munurinn í dag er kannski aðallega sá að svo margir hafa aðgang að víðlesnum vefjum og samfélagsmiðlum að það er meira af skítkastinu en fyrr og fólk sem aldrei fengi inni með grein í blaði eða kveddi sér hljóðs á pólitískum fundi finnur sér þar vettvang til að ausa úr skálum reiði sinnar. Eðli netsins er líka að það sem er skrifað birtist strax og fær gjarnan litla umhugsun eða yfirvegun.

Þeir sem standa í opinberri umræðu starfs síns vegna eru yfirleitt fljótir að læra að skilja á milli skítkastsins og raunverulegrar gagnrýni. Það fyrrnefnda geta menn látið sér í léttu rúmi liggja, en á því síðarnefnda mega menn gjarnan taka mark, ef gagnrýnin er málefnaleg.

Við skulum líka passa okkur að gengisfella ekki eineltishugtakið með því að nota það yfir harða gagnrýni. Stjórnmálamenn verða til dæmis að þola að störf þeirra séu gagnrýnd, en þeir eiga heimtingu á að það sé gert með rökum, en ekki persónulegu skítkasti, uppnefnum eða árásum á fjölskyldu þeirra, sem því miður eru of mörg dæmi um.

Ábendingar Agnesar og Ólafs Ragnars mega hins vegar allir sem tjá sig á netinu taka til sín.






×