Eftir að hafa lifað af tvö flugslys og verið í dái í átta vikur er Austin Hatch farinn að spila með einu besta háskólakörfuboltaliði Bandaríkjanna.
Saga Hatch er engri lík. Hann samdi við Michigan-háskólann um að spila með þeim árið 2011. Aðeins tíu dögum síðar lenti hann í flugslysi ásamt föður sínum og stjúpmóður.
Þau létust bæði en Hatch slasaðist mikið og var í dái í átta vikur.
Þetta var annað flugslysið sem Hatch lenti í. Átta árum áður fórust móðir hans og tvö systkini í öðru flugslysi. Hann er því búinn að missa alla sína nánustu í flugslysum sem hann lifði sjálfur af. Faðir hans var flugmaðurinn í báðum slysum.
Þrátt fyrir mikið mótlæti hefur Hatch haldið áfram og í nótt skoraði hann sín fyrstu stig fyrir Michigan í æfingaleik. Hann skoraði af vítalínunni 12 sekúndum fyrir leikslok og áhorfendur stóðu upp fyrir honum.
„Mig er búið að dreyma um þetta augnablik síðan ég var lítill drengur. Eftir allt sem á undan er gengið var þetta mjög sérstakt augnablik í mínu lífi," sagði Hatch eftir leik.
Lifði af tvö flugslys og byrjaður að spila körfubolta
