Viðskipti innlent

Landsvirkjun þarf að skammta rafmagn til stórkaupenda

Gissur Sigurðsson skrifar
Fréttablaðið/Vilhelm
Landsvirkjun verður að öllum líkindum að grípa til rafmagnsskömmtunar til stórkaupenda vegna skorts á raforku. Skömmtunin mun ekki snerta almenning en gæti kostað Landsvirkjun allt að 700 milljónir króna í töpuðum tekjum.

Það er vatnsskortur í vatnslónum fyrirtækisins sem veldur þessu, en það má rekja til lítillar úrkomu og kulda á hálendinu síðastliðið vor og sumar. Ekki náðist að fylla lónin í haust, eins og venjan er, og veturinn núna hefur verið óvenju þurr og kaldur og því hefur innrennsli í lónin verið langt undir meðallagi.

Vatnsborð í Þórisvatni, sem er langstærsta lónið, er nú heilum fimm metrum undir meðallagi, sex metrum undir meðallagi í Hálslóni og fjórum metrum undir meðallagi í Blöndulóni. Vatnsbúskapurinn hefur því ekki verið verri í mörg ár, en 15 ár eru síðan að grípa varð til skömmtunar af sömu sökum.

Ef til kemur verður raforka skert, eða skömmtuð, til álveranna í Straumsvík, á Grundartanga og í Reyðarfirði og til Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og Bektrómal verksmiðjunnar á Akureyri.

Allt að tíu prósent orkunnar, sem Landsvirkjun selur til þessara fyrirtækja, er skerðanleg í slökum vatnsárum, samkvæmt samningum, en Landsvirkjun telur að skerðingin verði mun minni, eða um þrjú prósent, og gæti husanlega varað frá miðjum febrúar til aprílloka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×