Viðskipti innlent

Sjötíu og einn vildi framkvæmdastjórastarf

Haraldur Guðmundsson skrifar
Strætó bs. er í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Strætó bs. er í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. vísir/vilhelm
Strætó bs. barst 71 umsókn í starf framkvæmdastjóra fyrirtækisins en umsóknarfrestur rann út 15. desember síðastliðinn. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Strætó frá 19. desember.

„Ráðgjafar Capacent munu nú fara yfir umsóknir og meta þær eftir fyrirframgefnum matsramma,“ segir í fundargerðinni.

Stjórn Strætó komst í nóvember að samkomulagi við Reyni Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins, um að hann léti af störfum. Í tölvupósti sem stjórnin sendi starfsmönnum Strætó mánudaginn 24. nóvember kom fram að það væri sameiginlegt mat beggja aðila að ekki væri lengur traust milli stjórnar fyrirtækisins og framkvæmdastjórans. Fjölmiðlar höfðu þá greint frá kaupum fyrirtækisins á tíu milljóna króna Mercedes Benz-jeppa sem Reynir hafði til umráða. Reynir tók sjálfur ákvörðun um að kaupa jeppann og bar hana hvorki undir stjórn né stjórnarformann.

Bryndís Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætó, sagði í kjölfarið að rekstrarúttekt yrði gerð á starfsemi Strætó. Í áðurnefndri fundargerð samþykkir stjórnin tillögu stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um að unnin verði ítarleg greining á rekstri byggðasamlaganna þriggja; Strætó, Sorpu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Stýrihópur um verkefnið á að skila niðurstöðum eigi síðar en í lok apríl 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×