Viðskipti innlent

Seðlabankinn heldur gjaldeyrisútboð í febrúar

Haraldur Guðmundsson skrifar
Útboðin eru liður í losun gjaldeyrishafta.
Útboðin eru liður í losun gjaldeyrishafta. Vísir/GVA
Seðlabanki Íslands ætlar að halda þrjú gjaldeyrisútboð þriðjudaginn 10. febrúar á næsta ári. Bankinn mun þá bjóðast til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 33 0321.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í gær. Þar kallar Seðlabankinn einnig eftir tilboðum frá þeim sem vilja selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri.

Útboðin í febrúar verða þau síðustu þar sem boðið verður upp á fjárfestingarleiðina, þegar bankinn kaupir erlendan gjaldeyri fyrir íslenskar krónur og veitir afslátt til fjárfestingar hér á landi, samkvæmt núverandi fyrirkomulagi.

„Unnið er að því að uppfæra áætlun um losun fjármagnshafta í ljósi reynslunnar. Í uppfærðri áætlun verður fjallað nánar um næstu aðgerðir. Seðlabankinn áskilur sér rétt til að eiga viðskipti á milli útboða þar sem verð hverju sinni tekur mið af útboðsverði síðasta útboðs á undan,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×