Mexíkóski fjarskiptajöfurinn Carlos Slim er ríkasti maður heimsins á ný. Bandaríkjamaðurinn Bill Gates, stofnandi Microsoft, er þar með orðinn sá næstríkasti.
Tímaritið Forbes greinir frá því í dag að virði hlutabréfa í símafyrirtæki Slims, América Móvil, hafi í gær aukist svo um munar á bæði bandarískum og mexíkóskum mörkuðum. Eignir Slims eru nú metnar á rúma níu þúsund milljarða íslenskra króna.
Hlutabréf í América Móvil hafa hækkað í verði síðan fyrirtækið opinberaði áætlanir sínar um að losa sig við hluta af eignum sínum í samræmi við nýjar reglugerðir í Mexíkó fyrir símafyrirtæki.

