Viðskipti innlent

Ferðaplön þúsunda farþega gætu farið úr skorðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
WOW air kvartaði í fyrra til Samkeppniseftirlitsins vegna afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli.
WOW air kvartaði í fyrra til Samkeppniseftirlitsins vegna afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Vísir/GVA
EFTA dómstóllinn mun á næstunni kveða upp úrskurð vegna afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir flug til Bandaríkjanna. Vefurinn Túristi.is greinir frá því að málið hafi fengið flýtimeðferð hjá dómstólnum.

Ef EFTA dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að þau úrræði sem Samkeppniseftirlitið hefur vegi þyngra en reglur EES gæti þurft að breyta sumardagskrá WOW air og Icelandair. Bæði flugfélögin eru byrjuð að selja í ferðir fyrir næsta sumar og því ljóst að áætlanir þúsunda ferðalanga gætu farið úr skorðum.

Forsaga málsins er sú WOW air kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vegna afgreiðslutímans á Keflavíkurflugvelli og beindi máli sínu að Isavia, rekstaraðila flugvallarins. Samkeppniseftirlitið tók kvörtun WOW air til greina og sagði að flugfélagið ætti að fá tvo af afgreiðslutímum Icelandair á flugvellinum.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi þann úrskurð úr gildi og taldi að WOW air hefði ekki átt að kvarta undan Isavia heldur samræmingarstjóra Keflavíkurflugvallar. Vegna þessa ágreinings leitaði Hæstiréttur til EFTA dómstólsins.

Í frétt Túrista.is segir að reglur sem gilda um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum innan EES-svæðisins byggi á reglugerð frá IATA, alþjóðasamtökum flugfélaga. Samtökin hafa ekki viljað tjá sig um deiluna á Íslandi en telja núverandi kerfi þó sanngjarnt. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×