Viðskipti innlent

Segja sjóðinn ekki styðja kaupréttarkerfi hlutabréfa

Elimar Hauksson skrifar
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur gefið út yfirlýsingu í kjölfar fjölmiðlaumræðu um eignarhald sjóðsins í hlutafélögum.

Þar kemur fram að sjóðurinn hafi fjárfest í hlutafé allra þeirra fyrirtækja sem hafi verið skráð í Kauphöllinni eftir hrun og sjóðurinn hafi í sumum tilvikum stutt menn til að taka sæti í stjórnum þessara félaga. Haft sé að leiðarljósi að hófs verði jafnan gætt varðandi kjör stjórnenda hvers og eins félags þannig að þau verði í góðu samræmi við íslenskan veruleika. Auk þess sé í mótun ítarleg og formleg stefna til viðbótar hefðbundinni fjárfestingastefnu sjóðsins varðandi starfskjör stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækja sem sjóðurinn eigi hlut í.

Ásta Rut Jónasdóttir, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir sjóðinn ekki vera hlynntan kaupréttarkerfum hlutabréfa.

„Við höfum gert þeim aðilum sem við styðjum til stjórnarsetu grein fyrir okkar stefnu. Við höfum barist gegn kaupréttarkerfum hlutabréfa, jafnvel þó það hafi ekki komist í fréttir. Það eru kannski einhver kaupaukakerfi sem við viljum ekki að banna en þau þurfa þá að vera skýr og takmörk á þeim,“ segir Ásta.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að hvað varði hlutafélagið N1, þá ætti að vera ljóst að sjóðurinn fylgi sem fyrr stefnu sinni hvað starfskjör stjórnenda varðar, en hafa verði í huga að áhrif sjóðsins takmarkist við 10% hlutafjáreign. Að undanförnu hafi birst í fjölmiðlum villandi upplýsingar um starfskjör forstjóra N1. Þá segir ennfremur að fjárfestingin í félaginu hafi reynst vera traust og hún hafi sjóðsfélögum lífeyrissjóðsins góða ávöxtun fjár síns.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×