Viðskipti innlent

Netverslunum fjölgar milli ára

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þór Sigurðsson bendir á að vestanhafs hafi nýverið verið meira keypt á svokölluðum Cyber Monday-tilboðsdegi á netinu en á Black Friday-útsölunum.
Þór Sigurðsson bendir á að vestanhafs hafi nýverið verið meira keypt á svokölluðum Cyber Monday-tilboðsdegi á netinu en á Black Friday-útsölunum.
Skráðum verslunum í vefgáttinni Kjarni.is hefur fjölgað um nærri helming frá stofnun síðunnar snemma árs 2013. Þá voru skráðar 250 íslenskar netverslanir, en þær eru nú tæplega 500.

Þór Sigurðsson hjá Kjarni.is segir netverslun í sókn, verslunum hafi fjölgað mjög síðustu mánuði. „Velta netverslana eykst að sama skapi milli ára og vöruúrval eykst jafnt og þétt,“ segir hann og bendir á að samkvæmt könnun sem Hagstofan gerði á síðasta ári hafi 56 prósent Íslendinga notað netverslun síðustu 12 mánuði og velta numið um 1,4 milljörðum króna.

Þór segir vöxt í netverslun hér á landi sambærilegan við nágrannalöndin, eða allt að 15 prósent milli ára.

„Netverslun vex fimm til sex sinnum hraðar í heiminum en smásöluverslun og íslenskir kaupmenn munu klárlega ekki sitja eftir, því mikil tækifæri eru í netverslun. Verslun á netinu nær með auðveldari hætti til stærri markaðssvæða en verið hefur,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×