Viðskipti innlent

Vill heyja eyðijarðir fyrir úlfalda í Dubai

Kristján Már Unnarsson skrifar
Íslendingar ættu að heyja eyðijarðir fyrir úlfalda í Dubai og fá þannig fjórfalt hærra verð fyrir heyið. Þetta segir eigandi eyðijarðar sem átt hefur í viðskiptum í Dubai.

Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar í Hafnarfirði hefur selt vélbúnað til álvera í 30 löndum víða um heim. Sjálfur hefur Hjalti dregið sig í hlé frá daglegum rekstri en þegar við heimsóttum hann á eyðijörð hans á Bæjarnesi á Vestfjörðum í sumar heyrðum við að hann er enn á útkikki eftir viðskiptatækifærum.

Jörðin Bær á Bæjarnesi við norðanverðan Breiðafjörð.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
„Við erum með söluskrifstofu í Dubai fyrir álið. Þar sáu strákarnir að þeir flytja inn helling af heyi til úlfaldanna,“ segir Hjalti. 

„Það er ekki slegið gras þarna og hvergi hægt að fá fóður. Bagginn sem seldur er á 10.000-11.000 hér, - þetta er reyndar kallað rúllur í dag - hann getur farið í 30.000-40.000 þarna.“ 

Hjalti segir að þeir í Dubai setji það skilyrði, til að verjast sjúkdómahættu, að annar búpeningur hafi ekki gengið um túnið í þrjú ár. Því telur hann kjörið að heyja íslenskar eyðijarðir fyrir úlfalda. 

Hann segist sjálfur vera orðinn of roskinn til að brjóta tún til ræktunar en svíður að sjá eyðijarðir vannýttar. Nánar var rætt við Hjalta í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld, þeim seinni af tveimur. Fyrri þáttinn, sem sýndur var í síðustu viku, má sjá hér.

Úlfaldar í Dubai. Ekkert gras vex í eyðimörkinni og því er allt hey flutt inn.

Tengdar fréttir

Ferðamennirnir héldu verksmiðju gangandi

Hröð uppbygging gistirýmis hefur reynst happafengur fyrir byggingariðnaðinn og er helsta ástæða þess að einu steypueiningaverksmiðju Austurlands tókst að þreyja þorrann.

Ósýnilega fyrirtækið með 350 manns í vinnu

Það er kallað stærsta ósýnilega fyrirtæki landsins og er með yfir þrjú hundruð manns í vinnu, - byggðist upp á þjónustu við íslensk álver og smíðar nú sérhæfðan vélbúnað fyrir álver víða um heim.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.