Viðskipti innlent

Skyr sigursælt á matarkeppni í Danmörku

Samúel Karl Ólason skrifar
Jóakim Danaprins bragðar á íslenska skyrinu.
Jóakim Danaprins bragðar á íslenska skyrinu. Aðsend mynd
Skyr frá Mjólkursamsölunni hlaut þrenn gullverðlaun og þrenn heiðursverðlaun á Herning matarkeppninni í Danmörku í vikunni. Þannig hlaut skyrið allar helstu viðurkenningar í þessum vöruflokki.

Mjólkurbú hvaðanæva af Norðurlöndum taka þátt í keppninni en nú í ár voru samtals um 1.400 mjólkurvörur í keppninni. Samkvæmt tilkynningu frá MS hlaut fyrirtækið alls 39 verðlaun, þar af fimm gullverðlaun og fern heiðursverðlaun, sem vörur fá sem þykja skara fram úr í gæðum.

„Það er mjög ánægjulegt hversu vel gekk í keppninni og það er staðfesting á því hversu frábæra fagmenn við eigum,“ segir Einar Sigurðsson, forstjóri MS.

„Í síðustu viku fengum við mjög góða viðurkenningu í Bandaríkjunum þegar hinn þekkti vefmiðill Huffington Post valdi skyr bestu matvöruna í jógúrtflokki í Bandaríkjunum. Það verður mjög gott innlegg í áform okkar um að byggja upp fyrirtæki til sölu og markaðssetningar á skyri þar á næsta ári. Skyrviðskipti okkar á alþjóðamarkaði aukast stöðugt. Við flytjum nú út skyr til fjögurra landa og á Norðurlöndunum framleiða samstarfsaðilar okkar skyr með sérleyfissamningum sem skilar félaginu mjög góðum tekjum.“

Þetta er í ellefta sinn sem MS tekur þátt í Herning keppninni sem haldin er annað hvert ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×