Viðskipti innlent

Heimildir til fjárfestingar verði rýmkaðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. fréttablaðið/pjetur
Landssamtök lífeyrissjóða mæla með að frumvarp efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um rýmri fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða verði samþykkt.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir geti fjárfest í verðbréfum á hliðarmarkaði Kauphallar Íslands, First North, til jafns við verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á aðalmarkaði.

„Þær breytingar sem gert er ráð fyrir styðja við aukið framboð á fjárfestingarkostum á innlendum markaði fyrir fjármálagerninga. Breytingarnar eru til þess fallnar að efla þennan mikilvæga markað, auðvelda fyrirtækjum að afla fjár til uppbyggingar og rekstrar sem og að afla fjárfestum nýrra fjárfestingartækifæra,“ segir í umsögn Landssambands lífeyrissjóða.

Fjármálaeftirlitið leggst hins vegar gegn frumvarpinu í umsögn sinni. Bendir FME á að með umræddri breytingu færu heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga á First North úr 20% af hreinni eign lífeyrissjóðs í 100% af hreinni eign lífeyrissjóðs. Þarna sé gengið mun lengra en í fyrri hugmyndum, sem þó hafi ekki fengið brautargengi.

Þá bendir Fjármálaeftirlitið á að starfandi er nefnd sem vinnur að því að endurskcða fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×