Viðskipti innlent

Icelandair group semur við Vodafone

Stefán Árni Pálsson skrifar
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, og Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, skrifa hér undir samninginn.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, og Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, skrifa hér undir samninginn. vísir/aðsend
Icelandair Group og Vodafone hafa gert með sér samning um alhliða fjarskiptaþjónustu samstæðunnar.

Um er að ræða heildarfjarskiptasamning, sem kveður á um alla fastlínu-, internet- og gsm-þjónustu fyrir fyrirtækið og hefur hann þegar tekið gildi. Á næstu vikum mun starfsfólk Icelandair Group skipta yfir í Vodafone RED PRO þjónustuleið Vodafone.

Starfsmenn Icelandair Group eru ríflega þrjú þúsund talsins í dag, í níu dótturfélögum. Sem leiðandi aðili í ferðaþjónustu og flutningum til og frá landinu, heldur félagið úti fjölda starfsstöðva, á borð við ferðaskrifstofur, hótel, flutningaþjónustu og flugafgreiðslu, víða um land.

„Það er ánægjuefni að samningar hafi náðst við Vodafone. Starfsemi Icelandair Group er margþætt og kröfurnar miklar, enda starfar félagið á líflegum, alþjóðlegum markaði. Við væntum mikils af samningi okkar við Vodafone og efum ekki að félagið muni standast væntingar,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.

„Við erum stolt af því að Icelandair Group hafi valið okkur sem samstarfsaðila sinn á sviði fjarskipta. Félagið er það stærsta á íslenskum markaði og leiðandi í ferðaþjónustu, bæði til og frá landinu. Hjá Vodafone hlökkum við mikið til samstarfsins,“ segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×