Viðskipti innlent

Áttatíu prósent fyrirtækja virk

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir viðskiptaráðherra og grillmeistari var með í gleðinni hjá Startup Reykjavík í fyrrasumar.
Ragnheiður Elín Árnadóttir viðskiptaráðherra og grillmeistari var með í gleðinni hjá Startup Reykjavík í fyrrasumar.
Viðskiptahraðallinn Startup Reyjavík verður nú haldinn þriðja sumarið í röð en að honum standa í sameiningu Klak Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur og Arion banki.

„Markmiðið með Startup Reykjavík er að hraða ferlinu sem sprotafyrirtæki fara í gegnum þannig að þau nái að koma í verk á tíu vikum því sem annars tæki mánuði eða jafnvel ár,“ segir Stefán Þór Helgason, verkefnastjóri hjá Klak Innovit.

Tíu fyrirtæki taka þátt í Startup Reykjavík hverju sinni og stendur verkefnið yfir í tíu vikur. Fyrirtækin fá sameiginlega skrifstofuaðstöðu, aðstoð og leiðbeiningar frá tugum mentora auk þess sem Arion banki leggur hverju og einu fyrirtæki til 2 milljónir í hlutafé gegn 6 prósenta eignarhlut.

Hingað til hafa 20 fyrirtæki tekið þátt í Startup Reykjavík. Sextán þeirra eru ennþá virk, þrjú hafa verið sett í biðstöðu og eitt hefur hætt starfsemi. Hjá þessum fyrirtækjum vinna hátt í 70 manns í 49 fullum stöðugildum. Alls hefur verið fjárfest í þessum fyrirtækjum fyrir 60 milljónir króna og þau hafa hlotið styrki upp á 225 milljónir. Hluti styrkupphæðanna er háður framvindu verkefnanna.

Stefán Þór Helgason, verkefnastjóri hjá Klak Innovit.Vísir/HAG
„Startup Reykjavík er eitt af fáum afmörkuðum fjárfestingaverkefnum sem snúa að sprotafyrirtækjum en það er ljóst að þörfin fyrir verkefni af þessu tagi er mikil. Á milli tvö og þrjú hundruð hugmyndir og fyrirtæki sækja um inngöngu í Startup Reykjavík á hverju ári,“ segir Stefán.

Þær hugmyndir sem tekið hafa þátt í Startup Reykjavík eru fjölbreyttar. Má sem dæmi nefna viskíframleiðslu, hönnun og uppsetningu á sleðarennibraut niður Kambana, þróun og framleiðslu á sjálfvirkum lyfjaskammtara, fatahönnun, upplýsingar um söngtexta og gítargrip og margt fleira.

Öllum sem hafa snjalla hugmynd eða hafa stofnað fyrirtæki er frjálst að sækja um að taka þátt í Startup Reykjavík. Einfalt er að sækja um en það er gert rafrænt hér og umsóknarfrestur er til og með 30. mars 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×