Viðskipti innlent

Mikið tap hjá bílaumboðunum í fyrra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tap Heklu í fyrra minnkaði frá árinu á undan.
Tap Heklu í fyrra minnkaði frá árinu á undan. Vísir/Vilhelm
Tap bílaumboðsins BL eftir skatta nam 469 milljónum íslenskra króna í fyrra. Þetta sýnir ársreikningur félagsins. Tap félagsins árið á undan nam rúmum 22 milljónum íslenskra króna.

Sala félagsins á vöru og þjónustu jókst þó milli ára. Salan nam rúmum tíu milljörðum í fyrra en rúmum 9,4 milljörðum árið á undan. Rekstrartapið tvöfaldast, var 274 milljónir króna í fyrra en tæpar 123 milljónir árið á undan.

Eignir BL námu samtals 3,8 milljörðum króna undir lok síðasta árs. Félagið átti 2,75 milljarða króna í vörubirgðum. Þar af var 1,1 milljarður í nýjum bílum, 963 milljónir í notuðum bílum, 265 milljónir króna í varahlutum og 419 milljónir í vörum í flutningi. Árið áður átti félagið 2,66 milljarða króna í vörubirgðum, einnig mest í nýjum bílum og notuðum bílum.

Tap Heklu hf. nam 104 milljónum í fyrra, samanborið við 203 milljónir árið á undan. Tekjur Heklu námu tæplega 9,8 milljörðum króna en voru rúmlega 10 milljarðar króna árið á undan. Heildareignir Heklu um síðustu áramót voru um 2,8 milljarðar króna, en 3,1 milljarður árið á undan.

Verðmæti nýrra bíla var 1,2 milljarðar króna, en verðmæti þeirra var rúmlega einn milljarður árið á undan. Verðmæti notaðra bíla í eigu Heklu var 900 milljónir rúmar, sem er svipað og árið áður. Þá átti félagið varahluti fyrir tæplega 175 milljónir króna um síðustu áramót, en rúmlega 207 milljónir árið á undan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×