Viðskipti innlent

Seðlabankinn lækkar stýrivexti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Áfram er gert ráð fyrir miklum hagvexti á næstu þremur árum.
Áfram er gert ráð fyrir miklum hagvexti á næstu þremur árum. Vísir/Pjetur
Stýrivextir lækka um 0,25% samkvæmt ákvörðun peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt spá bankans eru heldur minni horfur á hagvexti í ár en gert hafði verið ráð fyrir. Áfram er þó gert ráð fyrir miklum hagvexti á næstu þremur árum.

Þá kemur fram í tilkynningu frá bankanum að verðbólga hafi verið undir markmiðum í níu mánuði samfleytt. Verðbólguhorfur til skemmri tíma eru betri en áður, meðal annars vegna lítillar alþjóðlegrar verðbólgu og stöðugs gengis krónunnar.

Þá segir jafnframt í tilkynningu:

„Nafnvextir Seðlabankans hafa verið óbreyttir í tvö ár, en raunvextir bankans hafa að undanförnu hækkað meira en búist var við sökum hraðari hjöðnunar verðbólgu og verðbólguvæntinga og umfram það sem staða hagsveiflunnar og nærhorfur gefa tilefni til. Því eru forsendur til að draga úr hækkun raunvaxta.

Framvinda nafnvaxta ræðst eins og alltaf af þróun eftirspurnar og verðbólgu. Verði launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmið gætu skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu hins vegar grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×