Innlent

Herjólfur snérist snögglega: "Með snarræði tókst skipstjóra að rétta skipið af“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Rannsóknarnefnd sjóslysa birti skýrslu sína í dag.
Rannsóknarnefnd sjóslysa birti skýrslu sína í dag.
Í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa, sem kom út í dag, er fjallað um innsiglingu Herjólfs í Landeyjahöfn í nóvember í fyrra. Í innsiglungunni fékk skipið á sig öldu og snérist í um það bil 35 gráður til bakborða. Í skýrslunni segir orðrétt: „Skipstjóra tókst að rétta skipið á stefnu á milli garðanna en þá snérist það allt í einu aftur u.þ.b. 35° í sama borð og stefndi á vestari garðinn. Með snarræði tókst skipstjóra að rétta skipið af og stýra því inn í höfnina.

Í skýrslunni segir einnig:

„Þetta er fjórða atvikið af sama toga sem RNSA hefur tekið til rannsóknar (sjá mál nr. 148/10, 108/11 og 127/12) og ágengar spurningar verið uppi um það hvort Herjólfur henti við þessar aðstæður.“

Ekki siglt í Landeyjahöfn í tvo daga

Ekki hafði verið siglt til hafnarinnar í tvo daga, áður en atvikið átti sér stað, vegna aðstæðna. Þegar ákveðið var að sigla til Landeyjahafnar virtust aðstæður líta vel út, eins og kemur fram í skýrslunni. Stuðst var við myndir úr upptökuvél í landi, staðsett var við höfnina, til þess að meta aðstæður.

Í skýrslunni kemur einnig fram að á leiðinni í Landeyjahöfn hafi vindurinn aukist og var kominn í VSV 12-16 metra á sekúndu. Þar er sagt frá því hvernig skipstjórinn hafi sagst hafa hægt á ferðinni þegar skipið nálgaðist hafnarmynnið, eins og vani er.

„Hann kvaðst hafa þurft að setja á fulla ferð þegar fyrra ólagið kom til að rétta það af. Skipið var þá komið mjög nálægt hafnargörðunum og vegna seinna ólagsins þurfti skipstjóri að beita fullu vélarafli áfram,“ segir í skýrslunni. Þar segir ennfremur:

„Fram kom hjá skipstjóra að einu merki þess að þetta væri í aðsigi væri sú að nokkrum sekúndum áður hefði stórt brot lent á vesturgarðinum. Á myndinni hér að neðan sést alda fyrir utan hafnargarðinn sem hafnarstjóri tók skömmu áður en skipið kom. Það er mat skipstjórnarmanna að þetta verði að teljast nokkuð mikið brot miðað við að öldudufl sýndi aðeins 2,1 m ölduhæð.“

Herjólfur viðkvæmur?

Í skýrslunni er þeirri spurningu velt upp hvort að Herjólfur væri mjög viðkvæmur fyrir því að fá á sig sjó á afturhornið, eins og það er orðað í skýrsunni. Þar kemur fram að leitað hafi verið til fyrirtækisins Ship Design & Consult GmbH, sem gefur ráðleggingar í málum sem þessum

„Þess var óskað sérstaklega að skoðað yrði skrokklag, gerðir útreikningar til að leggja mat á stefnufestu skipsins og leiða líkum að því hvaða ástæður gætu verið fyrir því að Herjólfur hafi snúist allt að 40° fyrir utan Landeyjahöfn á um 5-7 sekúndum.“

Fyrirtækið lagði til að breytingar yrðu gerðar á ákveðnum atriðum sem gera það að verkum að Herjólfur heldur illa stefnu. Lagt var til að breytingar yrðu gerðar á perustefni og slyngubrettum.

Í áliti rannsóknarnefndarinnar, sem kemur fram í lok skýrslunnar segir orðrétt:

„Nefndin telur að atvikið megi rekja til aðstæðna fyrir utan Landeyjahöfn og Herjólfur virðist henta illa við aðstæður sem þessar.

Nefndin telur brýnt að nú þegar verði öryggismálum hafnarinnar komið í viðunandi horf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×