Viðskipti innlent

Yfirlýsing Más: Óvíst að hann sæki um komi til endurráðningar

Bjarki Ármannsson skrifar
Már var endurskipaður seðlabankastjóri til fimm ára í dag.
Már var endurskipaður seðlabankastjóri til fimm ára í dag. Vísir/Stefán
Már Guðmundsson, sem í dag var endurskipaður seðlabankastjóri til fimm ára, segir ekki víst að hann muni sækjast eftir endurráðningu, komi til þess að endurráðið verði í yfirstjórn bankans á næstu misserum vegna lagabreytinga.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Már gaf frá sér í dag eftir að tilkynnt var um endurskipun hans. Í skipunarbréfi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra til Más er athygli vakin á því að vinna er hafin við heildarendurskoðun laga um Seðlabankann. Ljóst er að slík endurskoðun gæti haft í för með sér breytingar varðandi stjórnskipun bankans, til dæmis að bankastjórum verði aftur fjölgað.

„Ég tel í þessu sambandi rétt að upplýsa að ég hef í nokkur ár haft hug á að skoða möguleikann á að hverfa á ný til starfa erlendis áður en aldursmörk hamla um of,“ segir Már í yfirlýsingu sinni, en hann starfaði um hríð við Alþjóðagreiðslubankann í Basel í Sviss. „Ég taldi ekki heppilegt að gera það nú í ljósi ástandsins og verkefnastöðunnar í Seðlabankanum auk fjölskylduaðstæðna. Þetta mun breytast á næstu misserum. Það er því óvíst að ég myndi sækjast eftir endurráðningu komi til slíks ferlis vegna breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands á næstu misserum.“

Már þakkar jafnframt ráðherra traustið og segir mikil verkefni blasa við, meðal annars varðandi það að losa fjármagnshöft og varðveita verðstöðugleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×