Viðskipti innlent

Bandarísku Alzheimersamtökin verðlauna Kára Stefánsson

Bjarki Ármannsson skrifar
Verðlaunaveitingin til Kára byggir á grein sem birtist í vísindatímaritinu Nature í júlí 2012.
Verðlaunaveitingin til Kára byggir á grein sem birtist í vísindatímaritinu Nature í júlí 2012. Mynd/Bandarísku Alzheimerssamtökin
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, veitti í morgun viðtöku verðlaunum Bandarísku Alzheimerssamtakanna á þingi þeirra í Kaupmannahöfn. Verðlaunin kallast Inge Grundke-Iqbal verðlaunin, en þau eru veitt í fyrsta sinn í ár.

Í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu segir að samtökin hyggist í framtíðinni veita verðlaunin fyrir mikilvægar rannsóknir um orsakir Alzheimer-sjúkdómsins. Verðlaunaveitingin til Kára byggir á grein sem birtist í vísindatímaritinu Nature í júlí 2012. Þar var lýst rannsókn sem vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar unnu í samstarfi við lækna á Landspítalanum, þá Jón Snædal, Pálma V. Jónsson og Sigurbjörn Björnsson, og nokkra erlenda samstarfsmenn.

Ásamt því að veita verðlaununum viðtöku, flutti Kári erindi á þinginu í dag. Bandarísku Alzheimerssamtökin eru stærstu styrktarsamtök í heimi sem helga sig umönnun og stuðningi við Alzheimerssjúklinga og rannsóknum á sjúkdómnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×