Viðskipti innlent

Ráðstöfun séreignarsparnaðar gagnast ekki öllum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson, mælir gegn því að fólk sem stendur illa fjárhagslega sæki um ráðstöfun séreignarsparnaðar.
Tryggvi Þór Herbertsson, mælir gegn því að fólk sem stendur illa fjárhagslega sæki um ráðstöfun séreignarsparnaðar.
Opnað var fyrir umsóknir um að ráðstöfun séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána í dag. Nokkur hundruð manns hafa þegar sótt um, en það er gert með því að fara inn á vefsíðuna Leiðrétting.is.

Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnisstjóri um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána, segir ferlið þó örlítið flóknara en ferlið sem notast er við til að sækja um niðurfærslu á húsnæðislánum, en hægt er að notast við kynningarmyndbönd og leiðbeiningar á vefsíðunni.

Tryggvi segir opnun ferlisins ganga vonum framar. „Það er mikil traffík á síðunni okkar en einnig á banka- og fjármálakerfinu. Fólk er að kanna hvort það sé með séreignarsparnað og jafnframt að óska eftir slíkum,“ segir Tryggvi.

Hann segir þó að þessi leið gagnist ekki öllum. „Þeir sem standa tæpt fjárhagslega og eiga hættu á að fara í gjaldþrot, til dæmis þeir sem búa við mikla áhættu, atvinnurekendur með sjálfskuldaábyrgðir og annað slíkt, við ráðleggjum þeim ekki að sækja um. Ef fólk fer í gjaldþrot þá missir það allt sem það hefur lagt í þetta.“

Alþingi samþykkti lög sem leyfa fólki að nota séreignarsparnað sinn næstu þrjú árin, frá 1. júlí, til að greiða inn á höfuðstól lána. Þeir sem ekki eiga húsnæði mega nýta sparnað sinn næstu fimm ár til að greiða inn á húsnæðislán. Hámarksfjárhæð á ári er 500 þúsund krónur, en hjón eða samskattað fólk getur nýtt 750 þúsund krónur á ári.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.