Viðskipti innlent

Spá stýrivaxtalækkun þann 21. maí næstkomandi

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Vísir/Vilhelm
Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur á næsta vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 21. maí næstkomandi.

Verði þar með lokið lengsta tímabili óbreyttra stýrivaxta í sögu verðbólgumarkmiðs bankans. Greiningardeildin spáir því að þetta verði eina vaxtalækkun ársins og raunar eina vaxtabreyting ársins, en telur að eftir þessa lækkun muni nefndin ákveða að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út árið.

„Helstu rökin fyrir lækkuninni nú eru að verðbólgan er undir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans, verðbólgan ætti að haldast undir eða við verðbólgumarkmiðið út árið, verðbólguhorfur munu væntanlega batna samkvæmt nýrri spá bankans, gengi krónunnar hefur verið stöðugt frá síðustu vaxtaákvörðun og að kjarasamningum hefur verið lent í samræmi við verðbólgumarkmið fyrir stærstan hluta vinnumarkaðarins,“ segir í Greiningu deildarinnar.

Bankin segir peningastefnunefndina hafa opnað á vaxtalækkun á síðasta vaxtaákvörðunarfundi þann 19. mars. 


Samkvæmt fundargerð þótti peningastefnunefndinni þá helst koma til álita að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum eða lækka þá um 0,25 pósentur. Sagði í yfirlýsingu nefndarinnar vegna ákvörðunarinnar að það færi eftir þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga næstu mánuði hvort skapast gæti tilefni til lækkunar nafnvaxta. Nefndarmenn voru sammála um að verðbólguhorfur hefðu batnað en töldu ekki tímabært að lækka vexti meðal annars þar sem lengri tíma verðbólguvæntingar virtust enn vera töluvert yfir verðbólgumarkmiðinu. Allir studdu tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti.

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því jafnframt að peningastefnunefndin muni, eftir að hafa haldið vöxtum bankans óbreyttum út árið eftir þessa lækkun, ákveða að hækka stýrivexti bankans í þrígang á næsta ári um 0,75 prósentur samhliða því að spennan myndast í íslensku efnahagslífi og að verðbólgan fæstist í aukana á ný. Verða stýrivextir bankans þá komnir upp í 6,5 prósent í árslok 2015. Deidin spáir síðan einni 0,25 prósentustiga hækkun á árinu 2016.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×