Viðskipti innlent

Stofnfundur Félags markaðsgreinenda

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Frá stofnfundi Félags markaðsgreinenda í dag.
Frá stofnfundi Félags markaðsgreinenda í dag. Vísir/Ármann Einarsson
Félag markaðsgreinenda var stofnað á fundi í Reykjavík í dag. Tilgangur félagsins samkvæmt lögum þess er að vera faglegur vettvangur fyrir fagfólk og áhugamenn á sviði tæknigreiningar (e. technical analysis), atferlisfjármála (e. behavioral finance), megindlegrar greiningar (e. quantitative analysis) og reiknanlegra fjármála (e. computational finance).

Þá er félaginu jafnframt ætlað að vera vettvangur skoðanaskipta og reynslusagna á þessum sviðum og stuðla að aukinni umræðu, fræðslu, skilningi og eflingu á meðal félagsmanna sinna og innan fjármálastofnana, fjárfesta, háskóla og fjölmiðla. Félagið er ekki rekið í ágóðaskyni.

Í tilefni af stofnun félagsins og til minningar um föður sinn færðu börn Þorkels Valdimarssonar, þau Valdimar og Sigríður Elín, félaginu að gjöf enskt bókasafn hans með 315 bókum um tæknigreiningu og viðskiptaleg málefni. Þorkell lést fyrr á þessu ári, en hann var mikill áhugamaður um tæknigreiningu sem hlutabréfamiðlari og fjárfestir í meira en hálfa öld.

Þá flutti Gylfi Magnússon dósent við Viðskiptafræðideild HÍ erindi og svaraði fyrirspurnum um rannsóknir sínar á sviði atferlisfjármála við góðar undirtektir viðstaddra.

VÍB eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, hýsti fundinn á Kirkjusandi.

Fyrstu stjórn félagsins skipa:

Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica  - formaður

Ármann Einarsson, sjóðstjóri hjá Íslandssjóðum - viðtakandi formaður

Sigurður B. Stefánsson, fjárfestingastjóri hjá eignastýringu Landsbankans

Svandís R. Ríkarðsdóttir, sjóðstjóri hjá eignastýringu Landsbankans

Valdimar Þorkelsson, sérfræðingur, greiningarsviði Fjármálaeftirlitsins

Stefnt er að almennum félagsfundi í byrjun júní en hann verður kynntur sérstaklega af félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×