Viðskipti innlent

Plain Vanilla hrósað fyrir nýsköpun

Samúel Karl Ólason skrifar
Plain Vanilla er í sjöunda sæti á lista miðilsins Fastcompany yfir þau fyrirtæki sem sýna mesta nýsköpun í samfélagsmiðlum. Fyrirtækinu er hrósað fyrir leikinn QuizUp.

Twitter er á toppi listans og þá sérstaklega fyrir innleiðingu Vine myndbanda í tíst. Eftir þá breytingu fjölgaði notendum Twitter um 40 milljónir og fer enn fjölgandi.

Plain Vanilla er hrósað fyrir aðdráttarafl spurningaleiksins QuizUp og hve auðvelt leikurinn gerir fólki kleyft að skora á vini sína og fjölskyldumeðlimi.

„Á innan við þremur vikum eftir að leikurinn kom út í nóvember, hafði QuizUp náð rúmlega þremur milljónum notenda,“ segir í umfjöllun Fastcompany. Í lok desember hafði leiknum verið halað niður á yfir fimm milljónir snjalltækja.

Meðal annarra fyrirtækja á listanum eru Whatsapp, Snapchat og Foursquare.

Þá er NASA í fimmta sæti listans, en þeir reka 480 reikninga á samfélagsmiðlum og eru mjög virkir á Twitter og Youtube. Á meðal þess sem þeir hafa sent frá sér er Vine myndbönd af sólgosum, tíst frá Curiosity jeppanum, sem kannar yfirborð Mars, og myndir úr Alþjóðlegu geimstöðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×