Viðskipti innlent

Arion greiðir út 7,8 milljarða arð

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Á aðalfundi Arion banka í dag var tillaga stjórnar um að greiða út 7,8 milljarða króna arð vegna síðasta árs samþykkt.

Arðgreiðslan nemur um 60% af hagnaði bankans.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, fjallaði um uppgjör bankans fyrir árið 2013. Höskuldur telur afkomu ársins ágæta og í öllum meginatriðum í takt við áætlanir. Hann ræddi sérstaklega góðan stöðugleika í kjarnastarfsemi bankans. Þá sagði hann arðsemi upp á 9,2% viðunandi, sérstaklega í ljósi stórhækkaðs bankaskatts, og sagði fjárhagslega stöðu bankans sterka með eiginfjárhlutfall upp á 23,6%.

Jávætt var að mati Höskuldar að ný útlán Arion banka á árinu 2013 námu 120 milljörðum króna og er þar um að ræða 60% aukningu frá fyrra ári.  Þó nokkuð sé um einskiptisatburði og virðisbreytingar á árinu hefur dregið úr áhrifum þeirra á afkomu bankans. Hrein áhrif slíkra þátta á afkomu ársins eru neikvæð og er arðsemi af reglulegri starfsemi 10,5%, eða 1,3 prósentustigum hærri en arðsemi ársins.

Á fundinum voru eftirfarandi kjörnir í stjórn bankans: Benedikt Olgeirsson, Björgvin Skúli Sigurðsson, Guðrún Johnsen, Kirstín Þ. Flygenring, Måns Höglund, Monica Caneman og Þóra Hallgrímsdóttir. Þannig skipa konur meirihluta stjórnar, eru fjórar af sjö stjórnarmönnum. Kirstín er fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórninni, aðrir eru tilnefndir af Kaupskilum.

 

Af þremur varamönnum í stjórn eru tvær konur, en varamenn í stjórn bankans voru kjörnir Björg Arnardóttir, Sigurlaug Ásta Jónsdóttir og Ólafur Örn Svansson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×