Viðskipti innlent

Úr Landvernd í stjórn RARIK

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gísli
Ný stjórn var kosin á aðalfundi RARIK ohf. í dag.

Stjórnina skipa þau Arnbjörg Sveinsdóttir, fyrrverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Birkir Jón Jónsson fyrrverandi formaður fjárlaganefndar Alþingis, Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra, Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar og Huld Aðalbjarnardóttir fyrrverandi varaþingmaður Framsóknarflokksins.

Úr stjórn gengu Árni Steinar Jóhannsson, Hilmar Gunnlaugsson, Ingibjörg Sigmundsdóttir og Valdimar Guðmannsson.

Á aðalfundinum kom fram að verðjöfnun ríkisins til raforkudreifingar í dreifbýli  verður aukin nú um mánaðarmótin. Hjá meðalheimili með rafhitun í dreifbýli lækkar flutnings- og dreifikostnaður rafmagns um 15 - 20%  og heildarkostnaður rafmagns um 8 – 9 %.

Þá kom fram helmingur af 8.700 km dreifikerfi RARIK er nú kominn í jarðstrengi og að á árinu 2013 voru lagðir tæpir 230 km af nýjum jarðstrengjum, mest í dreifbýli.

Hagnaður RARIK samstæðunnar á árinu 2013 var 1.947 milljónir króna og jókst um 26% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir fjámagnsliði og skatta lækkaði hins vegar um 10%. Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í dag var ákveðið að greiða 310 milljónir í arð til íslenska ríkisins, sem er eini eigandi  félagsins.

Velta RARIK var 11.793 milljónir, eignir í árslok voru 46.787 milljónir og eigið fé 27.144 milljónir, eða 58%. Fjárfestingar á árinu námu 3.800 milljónum. Langmest var fjárfest í dreifikerfum raforku, en einnig var lokið við hitaveitu til Skagastrandar og hún tekin í notkun. Orkusalan dótturfélag RARIK vann að stækkun virkjunar í Rjúkanda í Ólafsvík sem tekin var í notkun í ársbyrjun 2014.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×