Viðskipti innlent

Ótrúlegt umburðarlyndi fyrir svartri atvinnustarfsemi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ríkissjóður verður árlega af tugum milljarða króna vegna svartrar atvinnustarfsemi. Eftirlit með málaflokknum er lítið sem ekkert. Ótrúlegt umburðarlyndi hjá stjórnvöldum segir aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.

Svört atvinnustarfsemi á Íslandi er umtalsverð samkvæmt rannsóknum Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsis og Ríkisskattstjóra. 12-15% launaðra manna á Íslandi fá laun sín greidd með ólögmætum hætti.

Hvað er þetta að kosta íslenskt samfélag?

„Samfélagslegt tjón áætlum við upp á tugi milljarða,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. „Það er erfitt að meta nákvæmlega hversu mikið það er en það er mjög umtalsvert. Það tapa í raun og veru allir nema skúrkarnir.“

Fáir tilkynna brot

Eftirlit með svartri atvinnustarfsemi er af skornum skammti að mati Halldórs. Gistiheimili hafa víða skotið upp kollinum í miðborg Reykjavíkur á síðustu mánuðum og leikur grunur á að hluti þeirra gefi ekki upp tekjur sínar.

„Okkur þykir vera ótrúlega mikið umburðarlyndi hjá stjórnmálamönnum, stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum og reyndar í samfélaginu öllu. Það er alveg ótrúlegt í ljósi þess að það eru svo margir sem tapa á þessari svikastarfsemi. Það eru alltof fáir sem láta vita.“

Annað viðhorf hjá nágrannaþjóðum

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartar framtíðar vakti athygli á málinu á Alþingi í dag. Hún bjó um skeið í Danmörku þar sem talsvert meiri umræða er um svartra atvinnustarfsemi en á Íslandi.

„Það er svolítið eins og að við tipplum á tánum í kringum þennan málaflokk. Það er ekki þannig á hinum Norðurlöndunum. Þar er fjallað um þetta samfélagsvandamál eins og hvert annað enda er það þannig að bótasvik og skattsvik grafa undan velferðarkerfinu og á ekki að líðast.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×