Hljómsveitin hefur slegið í gegn víða um heim en hún átti til að mynda lög í Hollywood-myndunum The Hunger Games og The Secret Life of Walter Mitty. Platan My Head is An Animal, sem plötuútgáfa á vegum Universal gat út í Bandaríkjunum, náði platínusölu vestanhafs en það þýðir að yfir milljón eintök hafi selst.
RÚV hefur eftir Þórhalli Andréssyni, framkvæmdastjóra félagsins, að Universal hafi greitt hljómsveitinni fyrirframgreiðslu sem á að standa straum af kostnaði við gerð nýrrar plötu. Óljóst er hversu há upphæð það sé en peningalegar eignir félagsins jukust um 114 milljónir króna árið 2013.
Eigendur félagsins eru meðlimir hljómsveitarinnar, þau Arnar Rósenkranz Hilmarsson, Brynjar Leifsson, Kristján Páll Kristjánsson, Nanna Bryndís Hilmarsdóttir og Ragnar Þórhallsson. Faðir Ragnars, Þórhallur, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.