Forsætisráðuneytið hefur á tæpu ári ráðstafað 205 milljónum króna í verkefni tengd húsfriðun, græna hagkerfinu og varðveislu menningarminja. Athygli hefur verið vakin á því að óþekkt áhugamannafélag á Norðfirði hafi fengið tvær milljónir í styrk til endurbyggingar á steinsteyptri fjárrétt í Norðfirði.
Tæplega helmingur fjárins, eða 101 milljón, fer til verkefna í kjördæmi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, Norðausturkjördæmi.
Styrkirnir voru ekki auglýstir og ekki kemur fram að í öllum tilvikum hafi verið úthlutað á grundvelli skriflegrar umsóknar.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar í NA-kjördæmi spurði forsætisráðherra um styrkveitingar á Alþingi.
Fram kemur í svari forsætisráðherra að þrjú verkefni í Fjarðabyggð fá styrk. 10 milljónum króna er úthlutað til endurbyggingar ytra byrðis Lúðvíkshúss í Neskaupstað.
Húsið er timburhús frá árinu 1881 sem var flutt að Nesgötu 20 árið 1885. Húsið er á skrá samkvæmt þjóðskrá frá árinu 1885 og síðara byggingarár skráð 1886.
Sex milljónum króna er úthlutað til Stríðsárasafnsins á Reyðarfirði til viðgerða á bragga/bröggum safnsins. Íslenska stríðsárasafnið á Reyðarfirði var stofnað árið 1995. Það hefur að meginmarkmiði að skrá og miðla sögu stríðsáranna 1939–1945 og er stefnan að miðla ekki einungis upplýsingum um stríðsárin á Reyðarfirði heldur á landinu öllu.
Tveimur milljónum króna var síðan veitt til áhugamannafélags í tengslum við endurbyggingu á steinsteyptri fjárrétt í Norðfirði.
Fram kemur í svari forsætisráðherra að Norðfjarðarrétt hafi minjagildi fyrir landbúnaðarsögu héraðsins og er enn í notkun sem auki gildi hennar í því samhengi. Viðgerð á réttinni hófst fyrir þremur árum en þá var hún verulega illa farin af veðrun og steypa í veggjum farin að molna.
Akureyri vikublað hefur vakið athygli á því að ekki komi fram í svari forsætisráðherra hvert áhugamannafélagið er og finnst ekkert um félagið í gögnum bæjarfélagsins.
Auk þess finnast afar takmarkaðar upplýsingar um Norðfjarðarrétt á heimasíðu Fjarðabyggðar. Fram kemur í frétt Akureyrar vikublaðs að þegar leitað er að Norðfjarðarrétt á heimasíðu Fjarðabyggðar kemur í ljós að um hana hefur verið rætt fjórum sinnum í fundargerðum á árunum 2011 og 2012. Á árinu 2012 var þremur milljónum varið til uppbyggingar réttarinnar.
Miðillinn hefur undir höndum bréf sem forsætisráðherrann skrifar undir til Jóns Björns Hákonarsonar, forseta bæjarstjórnar í Fjarðabyggð, og þar segir:
„Hér með tilkynnist að ákveðið hefur verið að veita áhugamannafélagi í yðar umsjón tveggja milljóna kr. styrk til endurbyggingar steinsteyptrar fjárréttar í Norðfjarðarsveit. Vinsamlegast snúið yður til Minjastofnunnar sem mun annast um samningsgerð og útgreiðslu styrksins í samræmi við verklagsreglur stofnunarinnar.“
