Viðskipti innlent

Icelandair Group og Háskólinn í Reykjavík í samstarf

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Áhersla verður á þverfaglegar rannsóknir á sviði ferðaþjónustu og flugsamgangna.
Áhersla verður á þverfaglegar rannsóknir á sviði ferðaþjónustu og flugsamgangna. Vísir/Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík og Icelandair Group undirrituðu í dag samstarfssamning um eflingu rannsóknarverkefna nemenda og kennara HR. Samningurinn er til þriggja ára og greiðslur nema 15 milljónum króna fyrir þetta tímabil. Í tilkynningu segir að lögð verði áhersla á þverfaglegar rannsóknir á sviði ferðaþjónustu og flugsamgangna og að nýta þann styrk sem felst í starfi háskólans á sviði tækni, viðskipta og laga.

Haft er eftir Björgólfi Jóhannssyni forstjóra Icelandair Group í tilkynningunni sem segir mikilvægt að fyrirtæki vinni nánar með háskólum landsins í rannsóknum og nýsköpun.

„Við bindum miklar vonir við samstarf okkar við HR og teljum nauðsynlegt að efla rannsóknir á sviði flug- og ferðamála á Íslandi.  Icelandair Group hvetur fyrirtæki landsins til að leggja sitt af mörkum við eflingu háskólamenntunar þar sem vel menntað starfsfólk og rannsóknir eru undirstaða öflugs atvinnulífs,“ segir Björgólfur í tilkynningunni.

Ari Kristinn Jónsson rektor HR segist fagna þessu samstarfi og að samningurinn sé mikilvægur fyrir háskólann, bæði kennara og nemendur.

„Hann nýtir með þessu styrk sinn á sviði þverfaglegs náms, rannsókna og nýsköpunar í atvinnulífinu.  Flugsamgöngur og ferðaþjónusta eru ein af grunnatvinnugreinum þjóðarinnar og mikilvægi þessarar starfsemi hefur verið að aukast á undanförnum árum,“ segir Ari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×