Handbolti

Langþráður sigur hjá Kára og Fannari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Kristjánsson.
Kári Kristjánsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Kári Kristjánsson og Fannar Friðgeirsson skoruðu saman þrjú mörk þegar HSG Wetzlar vann þriggja marka heimasigur á MT Melsungen, 29-26, í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Kári skoraði tvö mörk og Fannar var með eitt mark. Báðir fengu að spila heilmikið í leiknum en þeir fengu tækifæri þegar stefndi í enn eitt tapið í fyrri hálfleik.

Kári og Fannar komu inn í stöðunni 11-16 fyrir Melsungen og Fannar fékk mjög stórt hlutverk í framliggjandi varnarleik Wetzlar. Besti maður liðsins var þó markvörðurinn Nikola Marinovic sem var með 20 varin skot þar af 15 í seinni.

Wetzlar var búið að tapa fimm deildarleikjum í röð og þetta var fyrsti sigur liðsins síðan að liðið vann TuS N-Lübbecke í byrjun desember.

Öll mörk íslensku strákanna komu í seinni hálfleik þegar Wetzlar gerði út um leikinn en Kári skoraði meðal annars tvö fyrstu mörk liðsins í seinni hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×