Viðskipti innlent

Forstjóri Straums lætur af störfum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Pétur Einarsson hefur látið af störfum hjá Straumi fjárfestingabanka og ákveðið hefur verið að Jakob Ásmundsson muni taka við. Starfsfólki var tilkynnt þetta í upphafi starfsdags. Greint var frá því í gær að Pétri hefur verið meinað að stýra fyrirtæki í Bretlandi næstu fimm árin, en honum er gefið að sök skattalagabrot.

Pétur Einarsson hefur gegnt starfi forstjóra Straums frá 2011. Í tilkynningu frá Straumi segir að Pétur og stjórn bankans séu sammála um að umfjöllun sem varðar lok viðskipta hans í Bretlandi kynni að skaða hagsmuni Straums. Því var ákveðið að bregðast við með framangreindum hætti.

Jakob Ásmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Straums að undanförnu, er 38 ára að aldri, doktor í iðnaðarverkfræði frá Purdue háskóla í Bandaríkjunum. Hann réðst til Straums á árinu 2005 sem framkvæmdastjóri áhættustýringar. Jakob hefur gegnt ýmsum framkvæmdastjórastöðum hjá Straumi á liðnum átta árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×