Lífið

Hundstönnin í undirgöngum

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Harrý Jóhannsson er listamaðurinn á bak við veggskreytinguna á Laugavegi 34.
Harrý Jóhannsson er listamaðurinn á bak við veggskreytinguna á Laugavegi 34. Mynd/Gva
„Munstrið heitir Houndstooth og er rótgróið í tískuheiminum. Ég rakst á það á hatti í búðinni og sá að það yrði gaman að stækka það upp og betrekkja undirgöngin með því,“ segir Harrý Jóhannsson, listamaðurinn á bak við hressilega veggskreytingu á undirgöng í miðbænum við Laugaveg 34 þar sem notast er við aldagamalt skoskt vefnaðarmunstur.

Verkið vann hann fyrir Verslun Guðsteins nú í haust en hann er einnig höfundurinn að baki bindishnúta-leiðbeiningunum á gafli hússins sem löngu eru orðnar rótgrónar í hugum vegfarenda um Laugaveginn. Svo rótgrónar að mörgum finnst eins og þær séu jafngamlar húsinu.

„Ég lenti meira að segja í hálfgerðu rifrildi við mann, eldri en ég, sem stóð á því fastar en fótunum að myndirnar hefðu verið þarna frá því hann var pjakkur. Ég tek því sem svo að þær hafi tekist vel,“ segir Harrý hlæjandi.

„Sá veggur var skotmark veggjakrotara og ég gerði myndirnar fyrir Svövu í Guðsteini, eftir að hafa fylgst með henni mála vegginn aftur og aftur, dag eftir dag. Hann hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði síðan,“ segir hann.

Hundstannarmunstrið í göngunum er í vinnslu segir Harrý og verður klárað í vor. Litina í munstrið valdi hann út frá litum hússins og notaði pensil í stað úðabrúsa.

„Ég ákvað að mála munstrið á veggina en ekki spreyja, þannig verður það frekar partur af húsinu með tímanum, finnst mér,“ segir hann og er nokkuð ánægður með útkomuna.

„Ég hafði mjög gaman af þessu. Það er líka svo frábært að þessi næstum hundrað ára gamla búð á Laugaveginum standi fyrir svona skemmtilegheitum í miðbænum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.