Viðskipti innlent

Atvinnuleysið minnkaði um 2,6 prósentur milli ára í febrúar

Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru í febrúar að jafnaði 178.400 manns á vinnumarkaði. Af þeim voru 170.000 starfandi og 8.400 án vinnu og í atvinnuleit.

Atvinnuþátttaka mældist 78,9%, hlutfall starfandi 75,2% og atvinnuleysi var 4,7%. Atvinnuleysi var 2,6 prósentustigum lægra en í febrúar í fyrra en þá var atvinnuleysi 7,3%. Atvinnuleysi í febrúar s.l. var 4,4% á meðal karla miðað við 7,9% í febrúar í fyrra og meðal kvenna var það 5% miðað við 6,6% í febrúar í fyrra.

Á vefsíðu Hagstofunnar segir að árstíðaleiðréttur fjöldi atvinnulausra í febrúar 2013 var 8.400 eða 4,7% en var 10.200 eða 5,7% í janúar 2013. Fjöldi starfandi í febrúar 2013 var 172.200 eða 76,3% en var 169.900 eða 75,5% í janúar 2013. Atvinnuleysi minnkaði því um eitt prósentustig á milli mánaða og hlutfall starfandi hækkar um 0,8 prósentustig.

Leitni árstíðaleiðréttingar á atvinnuleysi sýnir að síðastliðna sex mánuði hefur atvinnulausum fækkað um 8,1% og hlutfallið minnkað um 0,5 prósentustig. Ef litið er til síðustu tólf mánaða sýnir leitnin að fjöldi atvinnulausra minnkaði um 25,9% og hlutfallið lækkaði um 1,8 prósentustig.

Leitnin sýnir enn hæga þróun á starfandi fólki síðustu tólf mánuði eða 1,9% aukningu á fjölda starfandi og hlutfallið hefur hækkað um 1,6 prósentustig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×